Innlent

Hjartaþræðingardeild á pari við samskonar norrænar deildir

Ásgeir Erlendsson skrifar
Aðstaða á hjartaþræðingardeild Landspítalans er orðin sambærileg því sem gerist á sjúkrahúsum annars staðar á norðurlöndunum en nýtt hjartaþræðingartæki var tekið í notkun í dag. Forstjóri spítalans segir himin og haf á milli ástandsins í tækjamálum nú og fyrir örfáum árum.

Nýja tækið var formlega tekið í notkun við hátiðlega athöfn á Landspítalanum við Hringbraut í dag. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur gerir Landspítala kleift að kaupa hjartaþræðingartækið en tækið kostar um 100 milljónir króna. Þetta er annað hjartaþræðingartækið sem er tekið í notkun á spítalanum á síðustu þremur árum.

Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, yfirlæknir hjartaþræðinga, segir nýja tækið mikla bragarbót.

„Þetta er auðvitað frábær viðbót og við höfum núna yfir góðum tækjakosti að búa. Við höfum núna þrjár mjög góðar hjartaþræðingarstofur. “



Sigfús Gizurarson, hjartalæknir, segist ánægður með nýja tækið enda hafi gamla tækið verið komið til ára sinna.

„Það var farið að geisla svolítið mikið og hætt að hreyfa það liðlega. Vinnan okkar verður hraðari, öruggari og betri.“

Ríkisstjórnin hefur frá árinu 2013 ráðstafað töluverðu fjármagni til tækjakaupa á Landspítalanum. Páll Matthíasson,forstjóri spítalans, segir ástandið í tækjamálum hafa stórbatnað og aðstaðan á hjartaþræðingadeild sé orðin sambærileg samskonar deildum á þeim norrænu sjúkrahúsum sem Landspítalinn beri sig saman við.

„Það er alveg himin og haf á milli þess núna ástandsins sem var fyrir fjórum, fimm árum. Nú sýnist okkur að áfram eigi að tryggja fjármagn til tækjakaupa sem skiptir sköpum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×