Innlent

Tafir á umferð við Hafnarfjall vegna bílslyss

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bílar bíða í langri röð við Hafnarfjall.
Bílar bíða í langri röð við Hafnarfjall. Vísir/Svavar Elliði
Miklar tafir eru á umferð við Hafnarfjall núna vegna bílslyss sem átti sér stað fyrr í kvöld. Viðmælandi Vísis sem hefur setið fastur í umferðinni á leið inn í Borgarnes í á klukkustund segir að svo virðist sem fólksbifreið hafi ekið yfir á rangan vegarhelming og ekið framan á smárútu sem hafnaði utan vegar.

Sá gagnrýnir störf lögreglu og segir ekkert ganga við að beina umferð í eðlilegan farveg.

Annar viðmælandi Vísis segir gífurlegar tafir á umferð.

Ekki náðist í Lögregluna á Vesturlandi við vinnslu fréttarinnar. Ekki er vitað um líðan farþega bílanna. MBL greinir frá því að ökumaður fólksbílsins hafi verið fluttur á heilsugæslu en að meiðsli hans teljist ekki alvarleg. Hann var einn í bílnum. Þá er greint frá því að sjö manns hafi verið í rútunni.

Uppfært:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar var því fyrir slysni haldið fram að fólksbifreiðin hafi hafnað utan vegar. Það var ekki rétt og hefur verið leiðrétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×