Innlent

Útskúfun bíður í litlum samfélögum

Sveinn Arnarson skrifar
Í nýrri doktorsrannsókn er skoðað félagslegt ferli sem af stað fer í litlum samfélögum þegar þar koma upp nauðgunarmál.
Í nýrri doktorsrannsókn er skoðað félagslegt ferli sem af stað fer í litlum samfélögum þegar þar koma upp nauðgunarmál.
Konur sem kæra nauðgun í litlum sveitarfélögum verða oft fyrir útskúfun úr samfélagi sínu þar sem bæjarfélagið snýst gegn þeim. Þetta er niðurstaða rannsóknar Guðrúnar Katrínar Jóhannesdóttur á því félagslega ferli sem fer af stað þegar nauðgun er kærð í litlu bæjarfélagi á Íslandi.

„Niðurstöður mínar sýna að konunum sem kærðu nauðgun, í sveitarfélögum sem þær ólust upp í, var refsað af samfélaginu með útskúfun og eða líkamlegu ofbeldi. Þær þurftu þá að takast á við annað áfall eftir nauðgunina sem er þessi útskúfun úr því samfélagi sem þær þekkja,“ segir Guðrún Katrín.

„Einnig vekur mikla athygli að einna virkustu aðilarnir í að refsa konunum sem ég ræddi við voru aðrar stúlkur. Á endanum þurftu þær að flytja úr því samfélagi sem þær þekktu.“

Rannsókn Guðrúnar Katrínar byggði á viðtölum við brotaþola nauðgana á tíunda áratug síðustu aldar. Hún vonast eftir að geta fundið nýrri dæmi og útvíkkað rannsókn sína. „Markmið mitt núna er að tala við fleiri brotaþola í þeim tilgangi að skoða hvort þetta hefur breyst. Hvernig lítil sveitarfélög taka á málun nú og hvort einhver markverð breyting hefur átt sér stað," segir Guðrún Katrín.

Þessi frétt birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 17. maí 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×