Innlent

Bíða boðunar á nýjan fund

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kjaradeila flugumsjónarmanna nær bara til Icelandair og dótturfélaga.
Kjaradeila flugumsjónarmanna nær bara til Icelandair og dótturfélaga. vísir/Pjetur
Slitnað hefur upp úr viðræðum Félags flugumsjónarmanna og Icelandair hjá ríkissáttasemjara.

Karl Friðriksson, formaður félagsins, segir síðasta fund hafa verið á mánudaginn var, en gerir ráð fyrir að ríkissáttasemjari boði til næsta fundar fyrir 23. maí næstkomandi, líkt og lög geri ráð fyrir. Funda verður minnst hálfsmánaðarlega í vinnudeilum sem er á borði ríkissáttasemjara.

Næstu skref segir Karl að séu til umræðu innan félagins, en ekkert hafi verið ákveðið um aðgerðir til þess að þrýsta á um gerð kjarasamnings. Dragist deilan á langinn sé þó viðbúið að einhver skref verði stigin í þá átt.

Í félagi flugumsjónarmanna eru um 50 manns, en deilan nær bara til starfsmanna Icelandair, tólf talsins. Samningar flugumsjónarmanna hafa verið lausir frá því í janúar.

Komi til aðgerða ná þær til millilandaflugs og mögulega innanlandsflugs hjá Flugfélagi Íslands. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×