Innlent

Milljarðar í plús hjá LÍN

Sveinn Arnarsson skrifar
vísir/valli
Lánasjóður íslenskra námsmanna var rekinn með sjö milljarða króna afgangi á síðasta rekstrarári.

Þetta kemur fram í ársreikningi LÍN. Fulltrúi námsmanna erlendis gagnrýnir að á sama tíma séu úthlutanir til þeirra skornar niður.

„Við hjá SÍNE höfum mótmælt því harðlega að verið sé að skerða framlag til nema erlendis. Til að mynda skrifaði ég ekki undir nýjar úthlutunarreglur og okkur finnst við ekki hafa fengið nægan stuðning frá stúdentum hér á landi því fulltrúar stúdenta samþykktu úthlutunarreglurnar,“ segir Hjördís Jónsdóttir, fulltrúi Samtaka íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) í stjórn LÍN. „Við teljum sjóðinn vel geta staðið undir öflugum útlánum til námsmanna erlendis.“

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segir sjóðinn félagslegan jöfnunarsjóð og ekki eiga að vera rekinn með hagnaði. Ef frá er dregið framlag ríkissjóðs til sjóðsins sé tap á rekstrinum.

„Í ársreikningi LÍN kemur fram að halli er á rekstri sjóðsins sem nemur 1,3 milljörðum króna án ríkisframlags í samanburði við níu milljarða króna halla á árinu 2014,“ segir Hrafnhildur Ásta. „Hér er vert að hafa í huga að ríkið styrkir námsmenn á námslánum að meðaltali um 47 prósent af útlánum sjóðsins á hverju ári.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 18. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×