Innlent

Í einangrun fyrir hnífaárás

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn verður í einangrun til 20. maí.
Maðurinn verður í einangrun til 20. maí. vísir/heiða
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem handtekinn var á sunnudag eftir að hafa veist að öðrum manni með hnífi, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut stungusár á vinstri handlegg. Honum er jafnframt gert að sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stendur – til 20. maí næstkomandi.

Fram kemur í dómnum að árásarmaðurinn hafi komið að húsi fórnarlambsins síðastliðið sunnudagskvöld þar sem hann hafi verið ógnandi og með læti. Er fórnarlambið hafi farið út og spurt hverju sætti hafi maðurinn gengið að honum með hníf, otað honum að hálsi hans og „öskrað að hann ætlaði að skera alla sem væru að meiða vinkonu hans“. Hinn maðurinn sagðist hafa orðið hræddur og sjálfur sótt hníf í íbúð sína.

Þá segir í dómnum að árásarmaðurinn hafi verið í annarlegu ástandi, valtur á fótum og froðufellandi þegar lögregla hafi mætt á vettvang. Hann sé þekktur hjá lögreglu og eigi að baki töluverðan sakaferil sem einkennist meðal annars af ofbeldis- og fíkniefnabrotum. Hann viðurkenndi að hafa stungið manninn og sagði það hafa verið í framburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×