Innlent

Segir meirihlutann í borgarstjórn vera að plata um leiguíbúðir

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson vísir/Daníel
Í umræðu um húsnæðismál ungs fólks í borginni á borgarstjórnarfundi í vikunni hitnaði borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í hamsi.

Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna, sagði meirihlutann í borginni hafa svikið sitt helsta kosningaloforð sem var að 2.500 til 3.000 leiguíbúðir myndu rísa í borginni á innan við fimm árum.

„En hver er reyndin? Það er ekki búið að gera nokkurn skapaðan hlut. Þið voruð bara að plata. Þið ætluðuð aldrei að gera þetta. Þið ætluðuð bara að fara og telja hjá hverjum byggingaraðila í einkarekstri hvað hann væri að byggja. Þið fáið kosningaloforð lánuð hjá verktökum úti í bæ,“ sagði hann í ræðustóli.

Dagur B Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði orð Halldórs honum til mikillar lítillækkunar og að það hefði alltaf komið skýrt fram í kosningabaráttunni að borgin ætlaði ekki að byggja sjálf íbúðir heldur gera það í samvinnu við öflug og gamalgróin byggingarfélög. „Það er örvæntingarfullur minnihluti sem gerir þetta enn að máli þegar það er margbúið að hrekja þetta.“

Áslaug Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir tóku undir orð oddvita síns, Halldórs.

„Það er ósanngjarnt að ýja að því að við sjálfstæðismenn séum með þrjóskuröskun í þessu máli,“ sagði Hildur og vildu þær Áslaug meina að mun fleiri en sjálfstæðismenn hefðu skilið kosningaloforðið með þessum hætti.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×