Innlent

Liðkað til fyrir komu erlends vinnuafls

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óttarr Proppé, formaður nefndarinnar og þingmaður Bjartrar framtíðar segir þetta vera  heildarendurskoðun á öllum útlendingalögunum.
Óttarr Proppé, formaður nefndarinnar og þingmaður Bjartrar framtíðar segir þetta vera heildarendurskoðun á öllum útlendingalögunum.
Samtök iðnaðarins fagna nýju frumvarpi um útlendingalög sem liggja fyrir þinginu. Þverpólitísk þingmannanefnd sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði árið 2014 skilaði af sér tillögu að frumvarpi til ráðherra í haust.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra mælti svo fyrir frumvarpinu fyrir nokkrum vikum og er frumvarpið nú í umsagnarferli í allsherjar- og menntamálanefnd.

„Þetta er heildarendurskoðun á öllum útlendingalögunum þannig að þetta er stór og flókin löggjöf. Það er talsvert verið að skýra réttindi og skyldur einstaklinga en líka ríkisins,“ segir Óttarr Proppé, formaður nefndarinnar og þingmaður Bjartrar framtíðar, við Fréttablaðið.

Samtök iðnaðarins telja að í frumvarpinu felist mikilvægar breytingar sem liðka muni fyrir komu erlends vinnuafls til landsins auk þess sem frumvarpið leiði til meiri skilvirkni og sveigjanleika.

„Á Íslandi er að byggjast upp öflugur iðnaður þar sem atvinnutækifæri eru mikil fyrir innlenda sem erlenda starfsmenn. Iðnaðurinn er að vaxa hratt og því fyrirsjáanlegt að íslenskt starfsfólk muni ekki geta mannað þær stöður til framtíðar,“ segir í umsögn Samtaka iðnaðarins.

Viðskiptaráð Íslands segir í sinni umsögn að ríki heims keppist um að bæta starfsskilyrði erlendra sérfræðinga. Mörg ákvæði frumvarpsins miði að því að bæta þjónustu við erlenda sérfræðinga.

Fréttin birtist í Fréttablaðinu 19. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×