Innlent

Fjögurra mánaða fangelsi fyrir fjölmörg brot

Vísir/Valgarður
Karlmaður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, fjársvik, þjófnað og eignaspjöll, svo fátt eitt sé nefnt. Maðurinn á að baki langan sakaferil.

Manninum var meðal annars gefið að sök að hafa blekkt leigubílstjóra til þess að aka sér frá Hringbraut að Ránargötu, vitandi það að hann gæti ekki greitt fyrir aksturinn. Hann sveik því út þjónustu af leigubílsstjóranum og kastaði svo grjóthnullungi í handlegg hans, að því er segir í dómi héraðsdóms.

Hann var jafnframt sakaður um að hafa stolið matvöru úr matvöruverslunum í Reykjavík og víni úr Vínbúðinni. Einnig tók hann Ipad, fartölvu og gps tæki úr ólæstri bifreið við Kirkjustræti í Reykjavík og braust inn í íbúð í Mosfellsbæ þaðan sem hann stal fjórum jökkum og veski. Þá var maðurinn ákærður fyrir fíkniefnalagabrot en lögregla hefur í tvígang fundið amfetamín í fórum hans. Hann játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×