Skoðun

Ný kynslóð bíður

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Andi breytinga svífur yfir vötnum í Samfylkingunni. Í lok þessa mánaðar hefst rafræn allsherjaratkvæðagreiðsla um formann flokksins og á landsfundi í byrjun júní veljum við nýja forystu. Stefnumótunin á landsfundi verður einnig með óhefðbundnum hætti. Unnið verður áfram með afrakstur hugmyndasmiðja í þjóðfundar­fyrir­komulagi sem tryggir að skoðanir allra fái að heyrast.

Þær breytingar sem eiga sér nú stað á forystu og starfsháttum Samfylkingarinnar eru nauðsynlegar. Grasrótin hefur lengi verið vanrækt og upplifun margra er að ákveðin gjá hafi myndast milli þingflokks og grasrótar. Það er ekki skrítið ef litið er til þess að engin endurnýjun varð í þingliði Samfylkingarinnar í síðustu alþingiskosningum. Það liggur á að eðlileg endurnýjun eigi sér stað. Miðað við fylgi flokksins í skoðanakönnunum mun það ekki gerast af sjálfu sér.

Ný kynslóð jafnaðarmanna stendur á kantinum og bíður eftir tækifæri til að láta ljós sitt skína. Vilji Samfylkingin lifa af sem stjórnmálaafl verða núverandi þingmenn flokksins að búa til pláss fyrir ný andlit. Annars er hætta á að það fjari enn frekar undan grasrótinni og fleiri öflugir einstaklingar finni hugmyndum sínum farveg á öðrum vettvangi, jafnvel í öðrum stjórnmálaflokkum. Ég vil leggja til að sitjandi þingmenn Samfylkingarinnar taki ekki oddvitasæti á framboðslistum fyrir næstu þingkosningar. Með því er hægt að tryggja að nauðsynleg endurnýjun verði í þingflokki Samfylkingarinnar.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. maí.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.