Erlent

Eru ungir, einhleypir og fáfróðir um trúmál

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tveir menn á þrítugsaldri, nefndir Ayoub B. og Ebrahim Hadj B., mættu fyrir dómara í Þýskalandi síðasta haust, eftir að hafa farið til Sýrlands í þeim tilgangi að ganga til liðs við Íslamska ríkið.
Tveir menn á þrítugsaldri, nefndir Ayoub B. og Ebrahim Hadj B., mættu fyrir dómara í Þýskalandi síðasta haust, eftir að hafa farið til Sýrlands í þeim tilgangi að ganga til liðs við Íslamska ríkið. Fréttablaðið/EPA
Skjölin frá Íslamska ríkinu, Daish-samtökunum svonefndu, sem lekið var til fjölmiðla staðfesta það að liðsmenn þeirra eru flestir ungir og einhleypir karlmenn sem hafa aðeins yfirborðskennda þekkingu á trúmálum.

Mennirnir voru meðal annars spurðir um ríkisfang og búsetu. Þar kemur fram að einn mannanna sagðist hafa búsetu á Íslandi, en enginn sagðist vera með íslenskt ríkisfang.

Alls voru upplýsingar um meira en 4.600 einstaklinga í skjölunum, sem voru á USB-lykli sem stolið var frá Daish í Sýrlandi.

Maður að nafni Abu Muhammed stal lyklinum og kom honum til NBC-fréttastofunnar í Bandaríkjunum. Fréttastofan afhenti stjórnvöldum upplýsingarnar og nú hafa sérfræðingar hersins í West Point unnið upp úr þeim skýrslu sem varpar ljósi á margt varðandi starfsemi Daish.

Á lyklinum voru eyðublöð sem hafa verið útfyllt þegar einstaklingarnir fóru yfir landamærin frá Tyrklandi til Sýrlands til að ganga til liðs við samtökin.

Að meðaltali voru mennirnir 26 til 27 ára þegar þeir fylltu út eyðublöðin, fæddir 1987 eða 1988. Sá elsti var þó fæddur 1945 og þar með að nálgast sjötugt. Hann var kvæntur fimm barna faðir sem óskaði eftir því að berjast með samtökunum en vildi ekki fylla flokk sjálfsvígsárásarmanna.

Athygli vekur að einungis tólf prósent mannanna bjóða sig fram til sjálfsvígsárása. Hin 88 prósentin vilja aðeins taka þátt í hernaði af öðru tagi.

Flestir þessir menn virðast hafa harla yfirborðskennda þekkingu á íslamstrú. Þannig segjast einungis fimm prósent þeirra hafa mikla þekkingu á sjaría-lögum múslima. Sjötíu prósent segjast einungis hafa byrjendaþekkingu á sjaría.

Menntunarstig þeirra er engu að síður frekar hátt. Meira en þriðjungur hefur sótt nám á háskólastigi en einungis fimmtán prósent segjast eingöngu hafa lokið barnaskólanámi. Reyndar gefa álíka margir ekki upp menntun sína þannig að þeir gætu verið allt að 30 prósent sem ekki hafa lokið nema barnaskólanámi.

Flestir þeir, sem hafa haldið áfram í skóla eftir framhaldsskólapróf, eru í störfum sem krefjast ekki sérstakrar menntunar, eða eru atvinnulausir.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 20. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×