Danny Willett er 28 ára gamall og frá Sheffied í Englandi. Enskur kylfingur hafði ekki unnið þetta virta golfmót á Augusta-vellinum síðan að Nick Faldo afrekaði það árið 1996.
Örlögin þurftu þó að grípa inn í svo að Danny Willett gæti yfir höfuð tekið þátt í Mastersmótinu í ár.
Nicole, eiginkona Danny Willett, var nefnilega sett á sunnudag, lokadag Mastersmótsins. Hún var hinsvegar búin að eignast soninn Zachariah James Willett á undan áætlun og því gat Danny Willett verið með á mótinu.
„Talandi um örlögin og allt sem því fylgir. Þetta hafa verið klikkaðir dagar hjá mér,“ sagði hinn nýkrýndi Mastersmeistari og jafnframt nýbakaði faðir Danny Willett.
Danny Willett nýtti sér þetta og vann sitt fyrsta risamót. Hann hafði best áður náð sjötta sæti á opna breska meistaramótinu á síðasta ári.
Þetta var aðeins annað Mastersmót Danny Willett á ferlinum en hann varð í 38. sæti á mótinu í fyrra.
