Innlent

FME fylgist með lekanum og sendir bönkunum fyrirspurn

Óli Kr. Ármannsson skrifar
Fjármálaeftirlitið er í háhýsinu við Katrínartún 2 í Reykjavík.
Fjármálaeftirlitið er í háhýsinu við Katrínartún 2 í Reykjavík. Fréttablaðið/GVA
Fjármálaeftirlitið (FME) hefur sent íslensku viðskiptabönkunum erindi þar sem óskað er eftir upplýsingum um hvort þeir bjóði þjónustu þar sem viðskiptavinir eru aðstoðaðir við að koma fjármunum fyrir í aflandsfélögum.

Í svari FME við eftirgrennslan blaðsins kemur fram að stofnunin geti ekki upplýst um einstaka eftirlitsskylda aðila, en hafi enga ástæðu til að ætla að fjármálastofnanir hér hafi gengið fram með þeim hætti.

Breska fjármálaeftirlitið (Financial Conduct Authority, FCA) hefur einnig brugðist við, að því er fram kemur á fréttavef The Guardian í gær og gefið bönkum og fjármálafyrirtækjum þar í landi vikufrest til að afhenda öll gögn um viðskipti þeirra við panamísku lögfræðistofuna Mossack Fonseca, en á sunnudag var tekið að birta upplýsingar úr skjölum sem láku frá stofunni.

Í svari stóru bankanna þriggja til Markaðarins á miðvikudag kemur fram að frá því þeir voru stofnaðir haustið 2008 hafi þeir ekki aðstoðað einstaklinga eða lögaðila við að stofna reikninga eða félög á aflands­svæðum.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME
Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, sem í gær var á ferðalagi erlendis, sagði í viðtali við RÚV á fimmtudag að auk þess að kalla eftir svörum frá bönkunum muni stofnunin grennslast fyrir um innihald Panama-skjalanna. Fjármálastofnunum sé skylt, að viðlögðum refsingum, að greina FME satt og rétt frá, en einnig verði fylgst með því hvort eitthvað úr gagnalekanum eigi við um íslensk fjármálafyrirtæki.

Gagnalekanum hefur verið lýst sem einhverjum umfangsmesta gagnaleka sem upp hefur komið í heiminum, en um er að ræða 11,5 milljónir skjala sem tengjast leynireikningum og félögum í eigu auðmanna, stjórnmálamanna og fólks með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi víða um heim.

Fram hefur komið að í gögnum þeim sem láku frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sé að finna upplýsingar um 800 aflands­félög í eigu um 600 einstaklinga eða lögaðila hér á landi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lét í vikunni af starfi forsætisráðherra vegna uppljóstrana úr gögnunum, en í þeim er einnig að finna félög sem tengjast Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Ólöfu Nordal innanríkisráðherra.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×