Skoðun

Saman gegn kynþáttamisrétti!

Kristín S. Hjálmtýsdóttir skrifar
Í dag 21. mars, á alþjóðadegi gegn kynþáttamisrétti, er ár liðið síðan Vertu næs átaki Rauða krossins gegn fordómum var hleypt af stokkunum. Með átakinu var skorað á alla að líta í eigin barm og skoða hvað hver og einn getur gert til að bæta sambúðina í fjölmenningarsamfélaginu. Rannsóknir sýna því miður að hér á landi þrífast fordómar í garð innflytjenda.

Fjölmargt hefur verið gert til að vekja athygli á kynþáttamisrétti og duldum fordómum og ég hvet lesendur til að kynna sér vefinn www.vertunaes.is og það áhugaverða efni sem þar er að finna. Fyrirlesarar Rauða krossins hafa farið vítt og breitt um landið og frætt um fjölmenningu og fordóma og m.a. rætt við fleiri en 4000 börn og ungmenni. Ef marka má viðhorf kynslóðanna sem eru að vaxa úr grasi eru góðir dagar í vændum. Við sem eldri erum þurfum hins vegar að venjast þeim raunveruleika sem fjölmenningarsamfélagið er og læra af víðsýni unga fólksins.

Alþekkt er að atvinnulíf á Íslandi mun á næstu árum þurfa á að halda fjöldanum öllum af erlendu starfsfólki, sérstaklega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Við höfum alla möguleika á að taka vel á móti þeim innflytjendum sem hingað koma til að vinna og búa.

Við eigum að meta hæfileika og þekkingu þeirra að verðleikum. Þeir eiga rétt á sömu mannréttindum og aðrir sem hér búa. Sömu réttindum og þeir Íslendingar búa við sem vilja starfa í öðrum löndum.

Málefni innflytjenda og þróun fjölmenningarsamfélags verða ofarlega á baugi næstu árin. Rauði krossinn mun áfram beita sér að fullum þunga í þessum málum og hvetur landsmenn til þess að standa saman um jafnan rétt allra.

Vinnum saman gegn kynþáttamisrétti!




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×