Skoðun

Heilbrigðisþjónusta – óháð efnahag

Magnús Orri Schram skrifar
Við eigum að setja miklu meiri fjármuni í heilbrigðisþjónustuna. Forgangsraða í þágu almennings. Sjúklingar og aðstandendur þeirra sem hafa dvalið á Landspítalanum skynja vel þá þörf sem er til staðar. Álagið og vinnuaðstaðan er óviðunandi. Mikið veikt fólk dvelur á göngum spítalans. Bílskúrar teknir undir sjúkrarúm. Starfsfólkið vinnur kraftaverk á hverjum degi en umhverfið er óboðlegt.

Verkefnið fram undan er þríþætt: Ljúka þarf við byggingu nýs spítala og bæta þannig aðstöðuna, minnka álagið og efla þjónustuna. Auka þarf styrk heilsugæslunnar sem getur þá verið fyrsti viðkomustaður almennings. Í þriðja lagi þarf að tryggja að fólk geti notið heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Að allir getið fengið þá aðstoð sem þeir þurfa en ekki bara þeir efnameiri. Það er því miður ekki raunin í dag.

Þess vegna á opinber heilbrigðisþjónusta að vera ókeypis. Fólkið sem veikist á ekki að þurfa að greiða háar fjárhæðir til að fá lækningu eða aðstoð. Þá er það veikast fyrir. Í dag getur það kostað milljónir að veikjast af krabbameini. Það kostar formúu að leita sér hjálpar í íslensku heilbrigðiskerfi. Það á ekki að líðast hjá jafn ríkri þjóð. Öflugt velferðarkerfi á að grípa þá sem þurfa aðstoð og styðja þá í gegnum erfiðleikana. Þannig stöndum við saman á bak við þá veiku. Í gegnum sameiginlega sjóði hjálpumst við að.

Almenningur vill setja meiri fjármuni í heilbrigðismál en við gerum í dag. Þess vegna skrifar fólk undir hjá Kára Stefánssyni. Peningarnir eru til staðar í þjóðfélaginu en stjórnmálamennina virðist skorta kjark til að forgangsraða í þágu almennings. Hægt er t.d. að sækja umtalsverða fjármuni til þeirra sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og hafa fengið veiðigjöldin lækkuð á undanförnum árum. Það má nýta þá fjármuni til að byggja upp heilsugæsluna, ljúka við nýjan spítala og tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu – óháð efnahag. Nú þegar betur árar eigum við að fjárfesta í heilbrigðismálum. Við viljum nefnilega búa í samfélagi þar sem fólk býr við jöfn tækifæri - óháð efnahag.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×