Erlent

Handtekinn fyrir að gleyma að skila VHS-spólu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Úr myndinni Freddy Got Fingered.
Úr myndinni Freddy Got Fingered.
James Meyers, íbúi í Concord í Norður-Karólínuríki, var á dögunum handtekinn á dögunum. Ástæðan er nokkuð undarleg en hann gleymdi að skila VHS-spólu árið 2002 og því fór sem fór. Myndbandaleigunni hefur fyrir löngu verið lokað en það hafði engin áhrif.

Lögreglumaður stöðvaði Meyers sökum þess að hann var með brotið afturljós á bíl sínum. Hann bað manninn um að sýna ökuskírteini og eftir að hafa kannað það kom fyrrnefndur glæpur í ljós.

„Ég veit ekki hvernig ég á að segja þér þetta en árið 2002 var gefin út handtökuskipun á hendur þér,“ segir Meyers að lögreglumaðurinn hafi sagt honum.

Myndin sem um ræðir er grínmyndin Freddy Got Fingered en myndin var skrifuð af leikstjóra hennar og aðalleikara, Tom Green. Sektin fyrir brot Meyers nemur 200 dollurum, um 25.000 íslenskum krónum, og hefur Green látið í veðri vaka að hann muni greiða sektina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×