Handbolti

Norskt félag stendur fyrir söfnun svo hægt sé að kaupa Hreiðar Levý

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hreiðar Levý í leik með Akureyri í vetur.
Hreiðar Levý í leik með Akureyri í vetur. vísir/stefán
Norska úrvalsdeildarliðið Halden Topphåndball er á eftir markverði Akureyrar, Hreiðari Levý Guðmundssyni, og safnar fé meðal stuðningsmanna til þess að geta fengið Hreiðar í markið hjá félaginu.

Markvörður liðsins, Rasmus Bech, er á leið til Þýskalands og félagið vill fá Hreiðar til þess að leysa hann af hólmi. Hreiðar er með reynslu úr norska boltanum síðan hann lék með Nøtterøy við góðan orðstír.

Í von um að landa Hreiðari setti félagið í gang söfnun á meðal stuðningsmanna. Markmiðið var að ná 1,5 milljónum króna og þegar er búið að safna einni milljón.

Söfnunin fór í gang án þess að gefið væri upp hver markvörðurinn væri. Félagið hefur nú greint frá því að um sé að ræða Hreiðar Levý og birtir myndband af tilþrifum hans í von um að það verði þess valdandi að hálf milljón náist í viðbót í söfnuninni.

Ef Hreiðar fer til félagsins þá verður gerður einn plús einn samningur við hann. Hann semur sem sagt til eins árs með möguleika á eins árs framlengingu.

Halden varð í fimmta sæti í norsku úrvalsdeildinni í vetur og er að hefja leik í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×