Skoðun

8 góðar ástæður til að hætta við þrengingu Grensásvegar

Páll Helmut Guðjónsson skrifar
Undanfarið hefur forgangsröðun meirihlutans í borginni þegar kemur að fjármálum mikið verið í umræðunni. Þó hefur eitt gæluverkefni Hjálmars Sveinssonar borgarfulltrúa verið ofar öllu og kallast það Þrenging Grensásvegar. Ég ætla í þessari grein minni að nefna nokkur góð rök fyrir því að hætt verði við þessa vitleysu sem allra fyrst.

1. Eftir Grensásvegi, milli Miklubrautar og Bústaðavegar ganga þrjár strætóleiðir (fjórar, ef með er talin leið 17 neðstu 20 metrana). Þrenging vegarins úr tveimur akreinum í eina mun hafa í för með sér umtalsverðar tafir á þeim leiðum.

2. Hjálmar nefnir gjarnan eitt atvik sem átti sér stað um árið sem pottþétta ástæðu fyrir framkvæmdinni, þegar ofurölvi ökumaður missti stjórn á bílnum sínum með þeim afleiðingum að hann keyrði niður grindverk og endaði í húsgarði. Nú hef ég ekki neina reynslu af ölvunar­akstri, en ég hugsa að mönnum í slíku ástandi standi á sama um fjölda akreina og hvort hámarkshraði sé 50 eða 30.

3. Það er nóg pláss þarna fyrir hjólabrautina hans Hjálmars. Það þarf ekki að fækka akreinum um helming til að malbika hjólreiðastíg!

4. Hjálmarsrökin varðandi að lækkun hámarkshraða og fækkun akreina auki loftgæðin í borginni halda engan veginn! Hvert mannsbarn sér að löng bílaröð í lausagangi sem kemst ekki leiðar sinnar sökum þrenginga gatna mengar margfalt meira en þegar flæðið á umferðinni er sæmilegt.

5. Göturnar í Reykjavík eru ónýtar sökum trassaskapar síðustu ára hjá borginni þegar kemur að viðhaldi gatna. Að mörgu leyti er Grensásvegur mjög merkileg gata. Þar má finna kafla sem felur í sér heila 10 metra af samfelldu, sléttu malbiki, sem er orðin mjög sjaldséð sjón á öllu höfuðborgarsvæðinu.

6. Áætlaður kostnaður við þessi ósköp er sagður vera 160 milljónir! Á sama tíma og borgin sker niður í grunnskólum, velferðarkerfinu, snjómokstri og gatnaviðhaldi, er mönnum virkilega alvara með að eyða fjármunum í svona rugl? Ég held ég sé ekki eini íbúi Reykjavíkur sem trúir því að 160 milljónum sé betur varið í annað.

7. Hjálmar hefur nefnt að þrenging Skeiðarvogs, Háaleitisbrautar og Snorrabrautar séu dæmi um vel heppnaðar framkvæmdir. Ég hef lent í því að strætóinn sem ég var að aka bilaði við endann á Skeiðarvogi, rétt við Langholtsveg og gatan stíflaðist í hálftíma sem hafði það í för með sér að íbúar hverfisins fengu að anda að sér fullt af tæru lofti sem kom úr pústkerfum bíla sem komust ekki leiðar sinnar það síðdegið. Ég þakka fyrir að enginn hafi hnigið niður á þessum tíma út af öllu góða loftinu og þurft á sjúkrabíl að halda. Sjúkrabíllinn hefði ekki komist! Öll vitum við hvað íbúar nálægt Snorrabraut hoppa hæð sína af kæti út af stórauknum loftgæðum í hverfinu eftir heimskulegustu framkvæmd síðustu áratuga, þ.e.a.s. þrengingu Snorrabrautar.

8. Það er mikið öryggisatriði að umferðin gangi þokkalega fyrir sig. Varla vill meirihlutinn þurfa að taka ábyrgð á því þegar hús brenna, fólk deyr eða verður fyrir tjóni af því að lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar komast ekki leiðar sinnar sökum umferðarteppu sem má rekja til Bestaflokksgæluverkefna.

Almennt er ég feginn því að núverandi meirihluti skuli vera við völd í Reykjavík. Ég vil ekki sjá Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkinn stjórna borginni. Það er nógu slæmt að hafa þessa flokka við völd á Alþingi. Það eru samt ákveðnar áherslur og „forgangsmál“ hjá meirihlutanum í Reykjavík sem eru mér með öllu óskiljanleg. Ég ætla rétt að vona að menn hysji upp um sig brækurnar og forgangsraði rétt, í þágu íbúanna í borginni, en ekki í þágu eins blaðrandi „besserwissers“ sem situr í borgarstjórn. Fyrsti liðurinn í því væri að hætta strax við þessi ósköp. Dagur sagði í viðtali nýverið að hann langaði til að vera borgarstjóri annað kjörtímabil. Maðurinn þarf að standa sig betur en þetta, annars missir hann borgina í næstu kosningum. – Aftur.




Skoðun

Sjá meira


×