Erlent

Lentu heilir á húfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Geimfararnir á jörðu niðri í Kasakstan.
Geimfararnir á jörðu niðri í Kasakstan. Vísir/EPA
Geimfararnir Scott Kelly og Mikhail Kornienko lentu í nótt á jörðinni eftir að hafa varið tæpu ári í geimnum. Með þeim var geimfarinn Sergey Volkov en allir þrír komu frá Alþjóðlegu geimstöðinni. Geimfar þeirra lenti á sléttum Kasakstan þar sem margmenni biðu eftir þeim.

Scott Kelly sagði að hann fyndi ekki fyrir mun á líðan sinni núna samanborið þegar kom til jarðarinnar síðast, eftir að hafa verið í geimstöðinni í fimm mánuði.

Hann og Kornienko voru um borð í geimstöðinni í 340 daga til að kanna hvaða áhrif svo löng dvöl gæti haft á líkama og sálfræðilegt ástand geimfara. Rannsóknin er undirbúningur að því að senda mannað geimfar til mars.

Samkvæmt AP fréttaveitunni ferðuðust þeir Kelly og Kornienko samtals um 232 milljónir kílómetra um geiminn. Þeir fóru 5.440 sinnum í kring um jörðina og upplifðu 10.880 sólarupprásir og sólsetur.

Sjá einnig: Snúa aftur eftir ár í geimnum

Kelly er nú sá Bandaríkjamaður sem hefur verið lengst í geimnum og sló hann gamla metið um 125 daga. Sá sem hefur verið lengst í geimnum er hins vegar Valeri Polyakov. Hann var í geimnum í 437 daga á árunum 1994 og 95.

Myndand NASA sem sýnir undirbúning fyrir brottför. Brottförina sjáfa og lendinguna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×