Erlent

Segja ríkisstjórn Sýrlands enn beita efnavopnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Zamalka, þar sem hundruð létu lífið í efnavopnaárás árið 2013.
Frá Zamalka, þar sem hundruð létu lífið í efnavopnaárás árið 2013. Vísir/AFP
Ísraelar segja að stjórnvöld í Sýrlandi hafi beitt efnavopnum gegn almennum borgurum landsins. Það hafi verið gert eftir að vopnahlé tók gildi í landinu. Uppreisnarhópar hafa margsinnis haldið því fram að stjórnarherinn brjóti gegn vopnahléinu. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, neitar þessum ásökunum og segir vopnahléið ekki ná til vígahópa.

Moshe Yaalon, varnarmálaráðherra Ísrael, sagði í gær að sýrlenski herinn beitti efnavopnum reglulega gegn borgurum og jafnvel á síðustu dögum. Þeir varpi tunnum af klóríð á borgara úr þyrlum.

Reuters fréttaveitan rifjar upp að árið 2014 greindi Efnavopnastofnunin, OPCW, frá því að klórgasi væri reglulega beitt í Sýrlandi. Jafnvel eftir að ríkisstjórn landsins lét af efnavopnum sínum. Í ágúst 2013 létu hundruð almennra borgara lífið í eiturvopnaárás ríkisstjórnarinnar á Zamalka og Ein Tarma.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi árásina og til stóð að bandaríski herinn myndi ráðast gegn Assad og hans mönnum. Rússar stigu hins vegar inn í og gripið var til málamiðlunar. Ríkisstjórninni var gert að afhenda OPCW öll efnavopn sín og var þeim eytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×