Innlent

Tveggja mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Kannabisræktandi á Höfn í Hornafirði var dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot. Hann á talsverðan sakaferil að baki.
Kannabisræktandi á Höfn í Hornafirði var dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot. Hann á talsverðan sakaferil að baki. vísir/getty
Þrjátíu og þriggja ára karlmaður á Höfn í Hornafirði var í Héraðsdómi Austurlands í dag dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir ræktun á kannabisplöntum. Þá var honum gert að greiða rúmar 450 þúsund krónur í sakarkostnað.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum rúmt kíló af kannabislaufum og fjörutíu og fjórar kannabisplöntur, sem voru allt að einn og hálfur metri á hæð, og vógu rúm átta kíló.

Í ákærunni segir að maðurinn hafi um nokkurt skeið ræktað kannabisplöntur og -lauf og játaði maðurinn brot sín skýlaust við þingfestingu málsins í febrúar.

Maðurinn á talsverðan sakaferil að baki, en á árabilinu 2000 til 2011 hlaut hann sextán refsidóma fyrir ýmis brot gegn almennum hegningarlögum, fíkniefnalöggjöf og umferðarlögum. Síðast hlaut hann tólf mánaða fangelsisdóm með dómi Hæstaréttar árið 2011 fyrir innbrot og að hafa hótað tveimur lögreglumönnum lífláti og líkamsmeiðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×