Innlent

Þingmenn allra flokka leggja til Laxnesssetur

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gljúfrasteini, sem áður var heimili fjölskyldu Halldór Laxness, er ætlað lykilhlutverk í nýju Laxnesssetri.
Gljúfrasteini, sem áður var heimili fjölskyldu Halldór Laxness, er ætlað lykilhlutverk í nýju Laxnesssetri. Vísir/Vilhelm
Þróunar- og ferðamálanefnd Mosfellsbæjar segir bæinn styðja heilshugar við hugmyndir um uppbyggingu menningarhúss að Gljúfrasteini. Kemur þetta fram í umsögn vegna tillögu á Alþingi um uppbyggingu Laxnessseturs.

Ferðamálanefndin segir mikla möguleika í uppbyggingu á Gljúfrasteini, sem var sem kunnugt er heimili Nóbelskáldsins Halldórs Laxness og fjölskyldu hans en er nú safn í eigu ríkisins.

Halldór Laxness á sjötíu ára afmæli sínu. Fréttablaðið/GVA
„Ævistarf Halldórs Laxness er dýrmætur þjóðararfur og ber að standa vörð um hann,“ segir nefndin sem kveður Mosfellsbæ minnast skáldsins með margvíslegum hætti á hverju ári.

Að þingsályktunartillögu um Laxnesssetur standa þingmenn úr öllum flokkum. Fela á mennta- og menningarmálaráðherra í samvinnu við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ og stjórn Gljúfrasteins að hefja uppbyggingu setursins. „Þar verði miðstöð allrar þekkingar um Halldór Laxness. Laxnesssetur verði jafnframt bókmenntasetur þar sem aðstaða verði til rannsókna og fræðistarfa,“ segir í tillögunni.

Fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni að þegar sé búið að tryggja land til að byggja Laxnesssetur með tengingu við heimili skáldsins að Gljúfrasteini.

„Ljóst er að Gljúfrasteinn stendur framarlega í flokki dýrmætra staða í íslenskri menningarsögu. Sú uppbygging sem þegar hefur átt sér stað er um margt til mikillar fyrirmyndar og hefur starfsemin svo sannarlega þegar sannað gildi sitt,“ segir í greinargerðinni þar sem minnt er á að Gljúfrasteinn hafi verið friðaður árið 2010 og sé nú viðurkennt safn. Plássleysi hái hins vegar starfseminni.

„Húsið sjálft er því í rauninni safngripur og einstakt að innbúið allt sé varðveitt óbreytt frá því að Halldór Laxness og fjölskylda hans bjuggu þar. Safnkosturinn samanstendur af innbúinu öllu, listaverkum, bókasafni, ljósmyndum og skjölum. Möguleikar til rannsókna og miðlunar eru óþrjótandi en mikilvægt er að hægt sé að tryggja örugga varðveislu safnkostsins til framtíðar bæði í húsinu sjálfu og í geymslu,“ segir áfram í greinargerðinni.

Þróunar- og ferðamálanefndin segir Mosfellsdalinn hafa sérstöðu í sögulegu og menningarlegu tilliti. Bærinn hvetji til þess að sú sérstaða verði gerð aðgengileg og sýnileg bæði heimamönnum og gestum. „Alhliða menningarsetur þar sem verður lögð áhersla á bókmenntir og rannsóknir ásamt umgjörð um ævi og starf Nóbelskáldsins stuðlar að því og væri bæði jákvæð og æskileg nálgun,“ segir ferðmálanefnd Mosfellsbæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×