Skoðun

Ég vil Lindu Pétursdóttur sem forseta

Ólafur Gunnarsson skrifar
Ég vil Lindu Pétursdóttur sem forseta. Það er aftur kominn tími til þess að kona verði forseti. Linda yrði sómi lands og þjóðar, sverð þess og skjöldur - og Linda er líka kona með bein í nefinu sem þorir að tala eins og henni býr í brjósti - svo sem ævisaga hennar sýndi þar sem hún segir frá lífshlaupi sínu af dæmafáu hugrekki og dregur hvergi strik yfir sem er einmitt aðalkostur bókarinnar, enda best að gera sér strax grein fyrir því að lægi við landauðn ef við ætluðu að leita uppi vammlausa manneskju til þess að gegna embætti forseta Íslands – Linda hefur lifað viðburðaríkri ævi og vegna þess að við erum land sem litið er til með virðingu og við álitin brautryðjendur þegar mál kynjanna eru rædd erlendis - þá þurfum við einmitt slíka konu á Bessastaði – annars er allt okkar tal um jafnrétti inntómt hjal. Við þurfum heimskonuna Lindu Pétursdóttur sem forseta, – það yrði stíll yfir Lindu með Ísabellu dóttur sína á Bessastöðum. Hér í eina tíð vakti hún athygli á Íslandi þegar hún var kosin fegursta kona í heimi – sem forseti lands okkar yrði hún okkur til enn meira sóma en með fegurðinni einni saman forðum. Kjósum Lindu Pétursdóttur.

Ólafur Gunnarsson rithöfundur.




Skoðun

Sjá meira


×