Erlent

Talskona fyrir skotvopnaeign skotin í bakið af fjögurra ára syni sínum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Myndin sýnir ungan dreng munda byssu á skotvopnaráðstefnu í St. Louis.
Myndin sýnir ungan dreng munda byssu á skotvopnaráðstefnu í St. Louis. vísir/getty
Jamie Gilt, 31 árs kona sem hefur ötullega barist fyrir rétti sínum og annarra til að eiga skotvopn, var flutt í snatri á sjúkrahús í gær eftir að hún varð fyrir skoti úr hálf sjálfvirkri skammbyssu. Byssumaðurinn var fjögurra ára gamall sonur hennar.

Gilt hefur í gegnum tíðina verið dyggur stuðningsmaður þess að hinn almenni borgari geti átt skotvopn. Hefur hún meðal annars haldið úti Facebook-síðu fyrir málstaðinn auk þess sem hún hefur sett inn tíst á Twitter sem tengjast málefninu.

Atvikið átti sér stað þegar mæðginin voru á ferð í Jacksonville í Florida. Sonur hennar kom höndum sínum á skammbyssuna þar sem hún lá hlaðin í aftursæti bíl hennar. Skotið reið af, fór í gegnum bílstjórasætið og þaðan í gegnum líkama Gilt. Það var henni til láns að skammt frá var lögreglumaður sem gat aðstoðað hana og komið henni undir læknishendur.

„Lögreglumaður í eftirlitsferð sá konuna þar sem hún sat í bíl sínum og veifaði til hans að koma til sín,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Putnam-sýslu við fjölmiðla. Á leiðinni á bráðamóttökuna sagði Gilt sjúkraflutningamönnum að sonur hennar hefði tekið í gikkinn.

Sonur Gilt er ekki í klandri vegna málsins en hins vegar hefur saksóknari hafið athugun á því hvort háttsemi Gilt, sem varð til þess að drengurinn kom höndum á byssuna, sé saknæm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×