Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - Haukar 16-25 | Haukar burstuðu Stjörnuna

Anton Ingi Leifsson í TM-höllinni skrifar
Haukastúlkur fagna í kvöld. Þær voru frábærar.
Haukastúlkur fagna í kvöld. Þær voru frábærar. vísir/stefán
Haukar unnu stórsigur á Stjörnunni í stórleik nítjándu umferð Olís-deildar kvenna, en lokatölur urðu 25-16. Sigurinn var aldrei í hættu eftir að Stjarnan skoraði einungis fjögur mörk í fyrri hálfleik.

Fyrri hálfleikurinn var með þeim ótrúlegri sem maður hefur séð. Stjarnan skoraði fyrsta markið sitt eftir fimmtán mínútur, en þá höfðu Haukarnir skorað sjö. Staðan í hálfleik var svo 17-4. Magnað.

Gestirnir úr Hafnarfirði skoruðu þrjú fyrstu mörkin, en sóknarleikur Stjörnunnar var heldur betur vandræðalegur í upphafi leiks. Þær sköpuðu sér ekki færi gegn firnasterkri vörn gestanna úr Hafnarfirði og áfram héldu gestirnir að salla inn mörkum.

Þegar staðan var orðinn 7-0 og fimmtán mínútur voru búnar hafði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, tekið tvö leikhlé, en það var einmitt eftir síðara leikhlé hans sem fyrsta mark Stjörnunnar kom; eftir fimmtán mínútna leik! Ótrúlegt.

Vörn Hauka ríghélt og það var ekki eins og Stjarnan hefði verið að klikka einhverjum dauðafærum. Þær klikkuðu tveimur til þremur góðum færum, en hitt voru allt langskot eftir að höndin hafði verið komin upp. Staðan þegar tíu mínútur voru til hálfleiks, 8-2, Haukum í vil.

Fjöldi tapaðra bolta hjá báðum liðum í fyrri hálfleik var í tugatali. Eftir að Stjarnan skoraði sín fyrstu mörk og staðan var orðin 8-2 héldu einhverjir að Stjarnan myndi ganga á lagið, en svo var alls, alls ekki. Þær skoruðu tvö mörk út allan hálfleikinn á meðan Haukarnir röðuðu inn mörkum. Staðan í hálfleik var svo 17-4, ég endurtek 17-4!

Maður var nánast orðlaus eftir fyrri hálfleikinn. Vörn Hauka var fáránlega góð, en það útskýrir samt ekki leik Stjörnunnar. Sóknarleikurinn var ömurlegur, andleysi yfirvonandi og Haukarnir sölluðu inn hraðaupphlaupsmörkum. Ég hefði verið til í að vera inn í klefa hjá Stjörnunni í hálfleik.

Til marks um fyrri hálfleikinn var markvörður Hauka, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, með 75% markvörslu. Það er ótrúleg tölfræði, en hún hafði fengið á sig sextán skot og varið tólf þeirra. Sjö leikmenn höfðu skorað fyrir Hauka í fyrri hálfleik - fleiri en mörk Stjörnunnar töldu.

Það var ekki mikil spenna í síðari hálfleik, eins og tölurnar gáfu til að kynna. Munurinn hélst áfram mikill, en Stjarnan skoraði þá fleirri mörk í síðari hálfleik en í þeim fyrri (fjögur í fyrri hálfleik - tólf í þeim síðari). Haukavörnin hélt áfram að spila vel og Elín Jóna var í þvílíkum ham í markinu, en sóknarleikur Stjörnunnar skánaði til mikillar muna.

Stjarnan náði aðeins að minnka muninn, en rauðklæddir gestirnir höfðu alltaf fulla stjórn á leiknum og sigldu að lokum öruggum níu marka sigri í hús, 25-16. Með sigrinum fer Haukar á topp Olís-deildar kvenna, en Grótta spilar á morgun. Stjarnan er áfram í sjötta sætinu.

Þetta er í annað skipti í vetur sem Stjarnan skorar einungis fjögur mörk í fyrri hálfleik. Þær gerðu það einnig gegn Gróttu í september, en þá skoraði Grótta þó bara tíu mörk gegn þeim. Fjölnir á þó þetta vafasama “met” en þær skoruðu þrjú mörk gegn Gróttu í fyrri hálfleik í nóvember.

Það eru engar líkur á að leikmenn eða þjálfarar Stjörnunnar sofni vært í kvöld. Þessi frammistaða var ekki boðleg og hvað þá hugsandi til þess að það hefðu einhverjir stuðningsmenn liðsins borgað sig inn á þessa hörmung. Helena Rut Örvarsdóttir og Sólveig Lára Kjærnested skoruðu tólf af sextán mörkum Stjörnunnar, en þær skoruðu sitt hvor sex mörkin.

Ramune Pekarskyte var markahæst hjá Haukum sem er á toppnum að minnsta kosti þangað til á morgun, en hún skoraði sex mörk úr átta skttum. Jóna Sigríður Halldórsdóttir skoraði fjögur mörk sem og Maria Ines De Silve Pereira. Elín Jóna var svo gjörsamlega frábær í marknu. Hún lokaði markinu og var með um 58% markvörslu.

Elín lokaði búrinu í kvöld.vísir/stefán
Elín Jóna: Fékk á mig eitt mark í fimmta flokki

„Þetta var örugglega auðveldara en ég hélt. Þetta var samt ekki auðvelt, en við spiluðum vel,” sagði maður leiksins, Elín Jóna Þorsteinsdóttir markvörður Hauka, við Vísi í leikslok.

„Vörnin var nátturlega frábær og þetta voru forrétindi að standa á bakvið þessa vörn,” en aðspurð hvort hún hefði einhverntímann fengið fjögur mörk á sig í heilum hálfleik svaraði hún kíminn:

„Já, í fimmta flokki þegar staðan fór 2-1. Þá fékk ég bara á mig eitt mark.”

Elín Jóna sá um Olís-deildar Snapchatið í dag, en það hefur greinilega farið vel í hana. Hún endaði með 58% markvörslu, en hún var með 75% markvörslu í hálfleik.

„Það skilaði sér,” sagði Elín Jóna að lokum.

Halldór Harri: Drullusvekktar með okkar frammistöðu í dag

„Maður er bara svekktur og niðurlútur í augnablikinu. Það er eitthvað sem stelpurnar eru sammála. Við erum drullusvekktar með okkar frammistöðu í dag og við þurfum að nota næstu daga til að koma okkur úr þessu,” sagði hundsvekktur Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, í leikslok.

„Það kom eitthvað stress og fólk byrjað að gera hluti sóknarlega sem við ætluðum ekkert að gera. Við ætluðum að reyna leysa þetta á einstaklingsframtaki og það virkar ekki. Leið og við myndum fá fyrsta markið þá myndi þetta fara að rúlla, en það kom svo svakalega seint að sóknarleikurinn var bara slakur.”

„Hvað fór úrskeiðis? Við erum örugglega með einhverja tuttugu plús tæknifeila og örugglega fjórtán af þeim eru algjörlega ópressaðir feilar sem við virðumst ekki ná að gefa sendingar á næsta mann. Skotin eru svo bara léleg.”

Stjarnan hafði fyrir leikinn unnið níu af síðustu tíu leikjum og var á miklu skriði. Var þetta mikið skref aftur á bak að mati Harra?

„Þetta er hluti af liðinu til að þroskast. Við þurfum sem lið og sem heild að koma okkur í gegnum þetta og finna lausnir,” og aðspurður hvort Halldór hafi tekið hárblasarann í hálfleik svarar hann:

„Nei, þegar maður er að tapa 17-4 í hálfleik þá held ég að stemningin sé það niðri að það þýði ekkert að taka hárblásarann. Við ræddum þetta aðeins og sóknarleikurinn var auðvitað miklu betri í síðari hálfleik og við þurfum bara að taka það með okkur,” sagði Halldór að lokum við Vísi.

Óskar: Það eru ágætir möguleikar í stöðunni

„Þetta var miklu auðveldara en ég bjóst við. Við mættum gífurlega sterkar til leiks og ég man ekki eftir að við hefðum náð svona góðu skriði eins og við gerðum í dag,” sagi Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka, við Vísi í leikslok.

„Ég er enn að átta mig á þessu. Þetta er mjög fallegur leikur af okkar hálfu í dag, sérstaklega fyrri hálfleikurinn, en síðari hálfleikurinn var aðeins slakari einbeitinglega séð og þær náðu aðeins að rétta sinn hlut. Ég er mjög ánægður með leikinn.”

Eftir fimmtán mínútur leiddu stúlkur Óskars 7-0 og Stjarnan náði varla að skapa sér færi. Hvað fór í gegnum huga Óskars þá?:

„7-0 yfir eftir fimmtán mínútur hefur oft þýtt ekki sigur, en við þurftum að halda áfram sama prógrammi og vera einbeittari í því sem við vorum að gera. Það er stutt á milli góðra og slæmra hluta.”

Haukarnir eru komnir á toppinn í bili að minnsta kosti, en Grótta spilar ekki fyrr en á morgun. Það gleður Óskar, eðlilega.

„Í sólahring allaveganna erum við á toppnum. Þetta er auðvitað gott innlegg til okkar að halda áfram í toppbaráttunni og við eigum FH næst. Það eru ágætir möguleikar í stöðunni hjá okkur,” sagði Óskar að endingu.

Rakel er mætt aftur.vísir/valli
Rakel Dögg: Leiðinlegt að hætta þegar þú gerir það ekki á þínum eigin forsendum

„Tilfinningin er mjög góð fyrir utan þetta tap. Það er samt sem áður mjög gaman að vera komin aftur,” sagði Rakel Dögg Bragadóttir, leikmaður Stjörnunnar, sem snéri aftur á handboltavöllinn í dag eftir langa fjarveru vegna höfuðmeiðsla.

„Ég er mjög spennt og það eru mjög skemmtilegar tímar framundan. Mér finnst mjög gaman að taka þátt,” en hvað kom til að Rakel Dögg kom aftur?

„Ég er búin að taka miklum framförum með höfuðið og gengið ótrúlega vel eftir að ég átti barn fyrir sex mánuðum og ég prófaði að byrja æfa. Það gekk fínt og svo byrjaði ég að mæta á handboltaæfingu og það gekk vel.”

„Mér fannst ég pínu skulda sjálfum mér að mæta og prófa vera með. Það er leiðinlegt að hætta þegar þú gerir það ekki á þínum eigin forsendum og ég ákvað að slá til. Ég er ótrúlega ánægð og vona að það gangi aðeins betur í næsta leik, en þetta er rosa gaman.”

Næst barst tal blaðamannns að því hvort Rakel Dögg væri mætt aftur endanlega, en hún vildi ekki ganga svo langt.

„Ég vil ekki kalla þetta “comeback” þar sem ég er búin að vera mjög “discreet” með þetta. Ef allt gengur vel þá verður það þannig, en ég er bara að taka einn dag í einu og skoða og hvernig ég verð. Þá verð ég með út tímabilið,” sagði Rakel.

„Ég byrjaði aðeins að hreyfa mig í desember, en svo fór ég að detta inn á handboltaæfingar fljótlega upp úr því. Ég hef svo sem ekkert verið alltof mikið á æfingum,” sagði Rakel að lokum, en sex mánaða sonur hennar grét í fangi hennar. Frábært að sjá Rakeli á vellinum aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×