Innlent

Einhuga um eflingu hafrannsókna

Svavar Hávarðsson skrifar
Samkvæmt áætlun 2016 verður Árni Friðriksson við mælingar og rannsóknir í 170 daga.
Samkvæmt áætlun 2016 verður Árni Friðriksson við mælingar og rannsóknir í 170 daga. Vísir/Anton Brink
Ástæða er til að stórefla hafrannsóknir við Ísland í ljósi þeirra gríðarlegu þjóðhagslegu hagsmuna sem eru undir. Bæði á þið við um mælingar á einstökum stofnum og undirstöðurannsóknir.

Þetta kom fram í máli þingmanna allra flokka í sérstakri umræðu á Alþingi í vikunni um nýja aflareglu í loðnu, en málshefjandi var Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.

Kristján lýsti yfir áhyggjum sínum með að mat Hafrannsóknastofnunar á loðnustofninum í janúar byggði á niðurstöðum annarrar af tveimur vikum sem rannsóknirnar stóðu, en veður og aðstæður í hafi hömluðu rannsóknum. Hann spurði hvort þetta dygði til – þegar haft væri í huga að hver 100 þúsund tonn af loðnu væru um 12 milljarða króna virði. „Hér ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð og við öll vegna þess að Hafrannsóknastofnun er í fjársvelti hvað varðar það að halda úti skipum til mælinga,“ sagði Kristján en tók þó tillit til þess að skipin fóru út til frekari mælinga sem er að ljúka.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra tók undir það sjónarmið að styrking hafrannsókna væri æskileg, ekki síst á loðnustofninum. Í dag væri um mælingar og mat á veiðiþoli í öndvegi en ekki um sérstakar rannsóknir á stofninum. Hafrannsóknastofnun hafi þurft að herða sultarólina eftir hrun, eins og aðrir, en hann taldi stofnunina ágætlega haldna enda hefðu fjárveitingar til hennar verið auknar. Hann tók undir að gríðarlegar breytingar eru að verða í hafinu; hlýnun er grunnvandinn og afrán hvala hefur verið í deiglunni þess vegna en svo virðist sem þeir séu þaulsetnari við loðnuát yfir veturinn en löngum fyrr. Hann varpaði því fram að ný aflaregla hefði kannski betur komið fram fyrr þar sem varúðarnálgun nýrrar reglu sýnist jákvæð í ljósi breytinga og óvissu.

Undir þetta tóku fleiri þingmenn, meðal annarra Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati. Af öðrum þingmönnum kváðu þau Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Samfylkingu, og Ásmundur Friðriksson, Sjálfstæðisflokki, fast að orði. Ólína sagði að krafan um sjálfbærni gerði mikilvægi rannsókna enn mikilvægari og í þessu ljósi væri dýrt að spara. Fjármagn yrði að setja í hafrannsóknir því það myndi skila sér margfalt til baka.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, sagði að stjórnvöld þyrftu virkilega að taka sér tak og efla getu Hafrannsóknastofnunar til að stunda mælingar og grunnrannsóknir.

Ný regla - minni afli

  • Kveikjan að umræðunni er mæling Hafrannsóknastofnunar í janúar á stærð loðnustofnsins eftir nýrri aflareglu sem gefur töluvert minni afla en sú eldri hefði gert.
  • Mat veiðistofns út frá þessari mælingu er um 675 þúsund tonn með ráðlagðri 177 þúsund tonna veiði, en 100 þúsund tonn er leyfilegur afli íslenskra skipa.
  • Aflareglan, sem sett er vegna krafna frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) um varúðarnálgun, gefur 80 þúsund tonnum minni afla en sú sem fyrir var.
  • Niðurstaðan var tilefni þess að hagsmunaaðilar lýstu yfir áhyggjum af því að um vanmat væri að ræða, og gagnrýnt var að hafrannsóknaskipin lægju bundin við bryggju í stað þess að gera frekari mælingar. Þau fóru síðar til frekari mælinga, sem er að ljúka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×