Viðskipti innlent

Hafna kröfu um nýja kosningu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Stjórn VR hefur hafnað kröfu um nýja kosningu til stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Í ályktun frá stjórninni segir að fyrirkomulagið sem viðhaft var við val á fulltrúum í stjórn LV sé í samræmi við reglur stjórnar VR, vinnureglur félagsins og lög þess.

Álit lögmanns VR var kynnt á fundi stjórnarinnar í kvöld og þar segir að ákvörðun um tilnefningu fulltrúa félagsins í stjórn LV sé á ábyrgð stjórnar VR og að engin rök séu til að fallast á kröfu um ógildingu.

Ályktun stjórnar VR má sjá hér á vef félagsins.

Ásta Rut Jónasdóttir bauð sig fram til endurkjörs í stjórn sjóðsins en náði ekki kjöri og hún gerði athugasemd við framkvæmd kosningu trúnaðarráðs. Það gerði Páll Örn Líndal líka, en hann var aðalmaður í stjórninni, en var ekki meðal sextán sem valdir voru hæfastir til starfanna.

Ásta Rut gerði athugasemd við að umsækjendur sem sætu í trúnaðarráði VR hefði ekki atkvæðisrétt í kosningunum, en fimm þeirra sextán sem þóttu hæfastir sátu í ráðinu. Þeirra á meðal var Ásta einnig.

Lögmaður VR segir að í lögum félagsins um hæfi stjórnarmanna og vinnureglum komi fram að stjórnarmenn skuli víkja sæti ef hagsmunir þeirra kunni að fara í bága við hagsmuni VR.

Þá benti Páll Arnar á að hvergi í lögum VR sé að finna heimild fyrir því að trúnaðarráð kjósi í stjórn og varastjórn LV. Samkvæmt ályktun stjórnarinnar er henni frjálst að velja aðferð til að velja val á fulltrúum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×