Skoðun

Næsta skref

Þórir Guðmundsson skrifar

Í síðustu viku komu hingað 35 sýrlenskir flóttamenn; sex fjölskyldur sem nú fá aðstoð hins opinbera og Rauða krossins til að aðlagast íslensku samfélagi. Forsætisráðherra og félagsmálaráðherra tóku á móti hópnum, sem fór inn í innréttaðar íbúðir og fær á næsta ári mikinn stuðning sveitarfélaga og Rauða krossins.

Móttaka flóttafólks lýsir bæði gestrisni og mikilli skynsemi, því stuðningurinn nýtist þjóðfélaginu til langrar framtíðar í velheppnaðri aðlögun. Við sem tókum á móti fólkinu í Leifsstöð fundum vel hversu vel það kunni að meta móttökuna.

Á árinu 2015 fengu 82 einstaklingar vernd á Íslandi eftir að hafa sótt um hæli hér á landi. Sumir þurftu að bíða lengi eftir þessari niðurstöðu – mörg ár – en aðrir einungis í nokkra mánuði. Þessir einstaklingar eru líka flóttamenn – þar á meðal frá Sýrlandi – en þeirra bíður ekki hið hlýja faðmlag samfélagsins sem hinir svokölluðu kvótaflóttamenn fá.

Við hjá Rauða krossinum heyrum sögurnar, meðal annars í Opnu húsi fyrir innflytjendur, sem haldið er tvisvar í viku. Gleðin sem brýst út þegar jákvæð niðurstaða í hælisumsókn er tilkynnt breytist í angist þegar menn þurfa að leita sér að íverustað, finna vinnu, læra íslensku, byggja upp líf sitt eftir tilveru á flótta.

Ýmsir aðilar vinna þegar á þessum akri. Reykja­víkur­borg býður upp á samtal við sérfræðinga á ýmsum sviðum, Mannréttindaskrifstofa Íslands lögfræðiráðgjöf og Rauði krossinn sjálfboðaliða, sem styðja fólk með ýmsu móti.

Íslenska leiðin í aðlögun flóttamanna virkar vel. Það sjáum við þegar viðtöl birtast við unga afganska konu sem kom hingað fyrir fjórum árum og talar þegar reiprennandi íslensku og situr á skólabekk í Háskóla Íslands. En takmörkum ekki íslensku leiðina þannig að sumir fái notið hennar en ekki aðrir.

Næsta skref hlýtur að vera að jafna stöðu flóttafólks. Einbeitum okkur að því sem skiptir mestu máli, sem er húsnæði, vinna og tungumálið. Það skortir ekki einu sinni heildstæða stefnu. Hún þarf bara að ná yfir alla flóttamenn.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×