Handbolti

Guðmundur við blaðamann: Þú ert sérfræðingurinn, ekki satt?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Vísir/Getty
Guðmundur Guðmundsson var skiljanlega sársvekktur eftir tapið gegn Þýskalandi á EM í kvöld en það þýðir að liðið fer ekki í undanúrslit, nema að Rússum takist að vinna Spánverja í kvöld.

Ef það verður raunin hefur Guðmundi mistekist að fara með danska landsliðið í undanúrslit á tveimur stórmótum í röð en það hefur ekki gerst hjá Dönum síðan 2001.

Guðmundur var ekki ánægður með að þurfa að spila tvo leiki í röð en Danir gerðu jafntefli við Svía í gær í æsispennandi leik. Stigið sem Danir töpuðu í þeim leik gæti reynst banabiti þeirra í mótinu.

Sjá einnig: Guðmundur: Vorum einfaldlega of þreyttir

Hann var í viðtali við BT Sport eftir leikinn í kvöld og benti blaðamaður Guðmundi á að mótafyrirkomulagið væri eins fyrir öll lið

„Það gengur ekki það sama yfir öll lið,“ sagði Guðmundur og sagði að Þjóðverjar hefðu fengið þriggja daga hvíld fyrir leikinn í kvöld.

„En þið spiluðuð ekki daginn fyrir leikinn gegn Svíþjóð?“ spurði blaðamaðurinn.

„Nú skaltu bara mun að Svíþjóð er með afar sterkt lið. Það er ekki leikur sem maður vinnur sjálfkrafa. Þú ert sérfræðingur og skrifar um handbolta, ekki satt? Þú mátt hafa þína skoðun og það getur vel verið að Svíþjóð sé með ömurlegt lið,“ sagði Guðmundur en viðtalið má lesa allt á heimasíðu BT.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×