Viðskipti innlent

Innkaupsverð á bensíni það sama og 2008

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá miðju ári 2014 hefur verð á hráolíu lækkað frá um 100 dölum á tunnu í um 30 dali.
Frá miðju ári 2014 hefur verð á hráolíu lækkað frá um 100 dölum á tunnu í um 30 dali. Vísir/GVA
Þrátt fyrir að innkaupsverð á bensínlítra sé rúmar 40 krónur, sem er það sama og í janúar 2008, hefur hlutur ríkisins aukist til muna. Árið 2008 var hlutur ríkisins 70 krónur af hverjum lítra en nú er hann 110 krónur. Þetta segir Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu.

Atlantsolía lækkaði verðið á bensíni um tvær krónur og dísil um eina krónu. En í tilkynningu segir Hugi að bensín hafi lækkað um 35 krónur frá síðasta sumri og um 60 krónur frá sumrinu 2014. Frá miðju ári 2014 hefur verð á hráolíu lækkað frá um 100 dölum á tunnu í um 30 dali.

Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu.Vísir/Anton
„Innkaupsverð á bensínlítra er í dag rúmar 40 krónur eða það sama og í janúar 2008. Þá var hins vegar hlutur ríkisins 70 krónur en er í dag 110 krónur eða 40 krónum hærri. Bíleigendur myndu því spara um 10 milljarða á ársgrundvelli ef hlutur ríkisins í bensínlítranum væri sá sami og fyrir 8 árum,“ segir Hugi í tilkynningunni.

Hann segir einnig að lækkandi innkaupsverð skipti miklu máli í gjaldeyrissparnaði og að í desember 2013 hafi innkaupsverð á bensíni verið um 45 krónum hærra en það er í dag.

„Það gerði eldsneytisinnkaupin á bensíni um 580 milljónum króna hærri eða um  7 milljörðum á ársgrundvelli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×