Viðskipti innlent

Hlutabréf hækkuðu um tugi prósenta

jón hákon halldórsson skrifar
Marel og Icelandair hækkuðu mest af stóru félögunum í Kauphöllinni á árinu.
Marel og Icelandair hækkuðu mest af stóru félögunum í Kauphöllinni á árinu. visir
„Ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði var frábær á síðasta ári og langt umfram það sem vænta má að jafnaði. Þar skiptir mestu máli ávöxtun tveggja af stærstu félögunum, Marel og Icelandair,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.

Stefán Broddi Guðjónsson forstöðumaður greiningardeildar Arion Banka, segir ávöxtun á síðasta ári umfram það sem búast megi við alla jafna.
Hann bendir þó á að mest hækkun hafi verið á bréfum Nýherja. Undir þetta tekur Jóhann Viðar Ívarsson, hjá greiningardeild IFS. „Við skulum ekki gleyma að hlutabréf í Nýherja, minnsta félaginu á aðallista, gáfu 260% ávöxtun á árinu og toppuðu alla aðra!“

Ávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði, mæld með Markaðsvísitölu GAMMA, var 18,2% á nýliðnu ári. Allar vísitölur GAMMA hækkuðu á árinu og bar hlutabréfavísitalan hæstu ávöxtunina yfir árið eða 49,9%. Úrvalsvísitala Nasdaq Ísland OMXI8, sem lýsir verðþróun félaga með mestan seljanleika, hækkaði um 43,4 prósent.

Jóhann Viðar segir að heilt yfir sé verðmæti íslenskra fyrirtækja á eðlilegum nótum miðað við aðra þá kosti sem fjárfestum bjóðist nú. Arnar I. Jónsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, telur líka að markaðsverðmæti sé frekar eðlilegt miðað við helstu kennitölur markaðarins. „Horft á helstu mælikvarða sem sýna eiga hvort um bólumyndun sé að ræða kemur í ljós að íslenski hlutabréfamarkaðurinn í heild er ekki farinn að sýna merki um yfirverðlagningu. Góður gangur er í hagkerfinu og gangi spár um hagvöxt eftir má gera ráð fyrir því að nýhafið ár verði gott á hlutabréfamarkaði, þó svo að við gerum kannski ekki ráð fyrir 40-50% hækkun,“ segir hann.

Þrjú fyrirtæki voru skráð á markað á síðasta ári. Fyrri hluta árs voru það Eik og Reitir. Í haust bættist svo Síminn við. Spurður segist Stefán Broddi hafa í upphafi árs átt von á fleiri skráningum. „Ef horft er til baka þá hafa 12 félög verið skráð á markað frá árslokum 2011. Ég held að það sé harla gott. Mestu máli skiptir samt að félögin hafa staðið sig vel í upplýsingagjöf og fræðslu til fjárfesta og almennings,“ segir Stefán Broddi.

Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu, segir verðmæti fyrirtækja í tak við aðra kosti sem fjárfestum bjóðist.
Jóhann Viðar segir að IFS hafi talið haustið 2014 að fyrrnefnd þrjú félög væru þau einu sem telja mætti nær öruggt að kæmu á markað á árinu 2015. „Svo það gekk eftir en við spáðum 3-5 skráningum á árinu. Venjan hefur verið sú á síðustu árum að nýskráningar hafa verið færri eða í neðri enda þess bils í fjölda sem greiningaraðilar hafa spáð. Svo þetta hefur gengið nokkuð hægt fyrir sig á Kauphöllinni,“ segir Jóhann Viðar.

Viðmælendur Markaðarins búast við góðu ári fram undan. Hafinn er undirbúningur á sölu 30 prósent hlutar í Landsbankanum. Talið er víst að sú viðbót muni hafa mikil áhrif. Verðmæti hlutar í bankanum muni hlaupa á tugum milljarða króna. Það sé nóg til að valda talsverðri breytingu á hlutfalli eftirspurnar og framboðs á markaðnum. Því þurfi að vanda söluferlið vel og passa að selja ekki of mikið í einu. „Hins vegar er vel heppnuð skráning bankans, sem og annarra banka, líkleg til að auka enn frekar áhuga á hlutabréfum sem fjárfestingu og efla markaðinn,“ segir Jóhann Viðar. Í sama streng tekur Stefán Broddi. „Ég hugsa að sala á eignarhlut í bönkunum þremur muni hafa heilmikil áhrif á íslenskan hlutabréfamarkað á næstu misserum og áhrifin verða ekki einvörðungu bundin við hlutabréfamarkaðinn.“


Tengdar fréttir

Veltan jókst um 34% milli 2014 og 2015

"Myndarleg aukning varð í viðskiptum á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði á árinu sem er að líða,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands, Nasdaq Iceland, um viðskiptin á árinu 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×