Hjallastefnan tapaði 187 milljónum króna á síðasta skólaári sem er talsverð breyting frá skólaárinu 2013-2014 þegar félagið hagnaðist um 42 milljónir króna.
Þór Sigfússon, stjórnarformaður Hjallastefnunnar, segir félagið hafa haft jákvæða afkomu í mörg ár en nú séu einna helst tvær ástæður fyrir lakari afkomu. Laun hafi hækkað samhliða nýjum kjarasamningum og félagið hafi verið í vexti. „Við höfum vaxið tiltölulega hratt á skömmum tíma. Sá vöxtur þýddi auðvitað að það var meiri kostnaður,“ segir Þór.
„Við höfum verið að fara meira inna á grunnskólastigið og miðstigið. Það eru svona tilraunaverkefni í gangi sem við höfum mikla trú á en eru auðvitað verkefni sem hafa tekið tíma og fé,“ bætir hann við.
Launakostnaður Hjallastefnunnar jókst um hálfan milljarð króna og annar rekstrarkostnaður um 100 milljónir. Tekjur félagsins jukust á móti um 360 milljónir.
Þór leggur þó áherslu á að peningar skipti Hjallastefnuna ekki mestu máli. „Auðvitað leggjum við alltaf áherslu á að vera réttum megin við strikið en við erum að mæla okkar afkomu fremur í líðan barnanna í skólunum og ánægju foreldra,“ segir Þór.
Þá sé eigið fé Hjallastefnunnar sterkt og félagið standi styrkum stoðum. Eigið fé Hjallastefnunnar lækkaði um 284 milljónir í 89 milljónir króna vegna tapsins. Þá nema skuldir félagsins 752 milljónum króna og eignir 840 milljónum króna. Þar af eru fasteignir bókfærðar á 730 milljónir króna.
Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, á 79,7 prósent hlutafjár í fyrirtækinu en hluthafar eru alls 19.
Hjallastefnan var stofnuð af Margréti Pálu Ólafsdóttur árið 2000 til þess að standa fyrir rekstri leikskólans Hjalla í Hafnarfirði á grundvelli þjónustusamnings. Margrét Pála hafði þá verið leikskólastjóri á Hjalla í áratug og þróað þar kenningar og námskrá Hjallastefnunnar.
Hjallastefnan tapaði 187 milljónum
Ingvar Haraldsson skrifar

Mest lesið

Gefast upp á miðbænum: „Það er hringur eftir hring, engin bílastæði“
Viðskipti innlent

Rapyd sé íslenskt fyrirtæki með kennitölu frá 1983
Viðskipti innlent


Rökrétt að lækka lyfjaverð í Bandaríkjunum
Viðskipti innlent

Þurfi að líta ofar í tekjustigann í næstu kjarasamningum
Viðskipti innlent

Hefja viðskipti með bréf í Alvotech í Stokkhólmi
Viðskipti innlent

Ráku framkvæmdastjórann og komust svo að rafmyntagreftrinum
Viðskipti innlent


Óttast að háir vextir sogi sparnaðinn til Tenerife
Viðskipti innlent
