Það ríkir gríðarleg spenna fyrir lokadaginn á Abu Dhabi meistaramótinu sem klárast á morgun en fimm heimsklassa kylfingar deila efsta sætinu á tíu undir pari.
Vegna þoku sem hefur truflað leik undanfarna tvo daga gátu flestir þátttakendur þó ekki lokið leik á þriðja hring í dag og því verður maraþonlokadagur á morgun þar sem sumir þurfa að leika allt að 27 holur.
Kylfingarnir fimm sem eru í forystu hafa allir áður sigrað á Evrópumótaröðinni, Joost Luiten, Branden Grace, Rickie Fowler, Ian Poulter og besti kylfingur heims, Rory McIlroy.
Þá eru margir kylfingar sem eru örfáum höggum frá efstu mönnum sem geta gert sig líklega á morgun en þar má meðal annars nefna Henrik Stenson á níu undir pari og Jordan Spieth á sjö undir.
Eitt er víst að lokadagurinn á Abu Dhabi meistaramótinu verður æsispennandi en bein útsending frá honum hefst klukkan 08:30 í fyrramálið.

