Golf

Erfiður fyrsti dagur hjá Ólafíu Þórunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR. Mynd/GSÍ(seth@golf.is
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, átti ekki góðan dag á fyrsta hringnum sínum á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, LET Evrópumótaröðinni.

Ólafía Þórunn lék holurnar átján á 80 höggum eða átta höggum yfir pari. Hún er í 115. sæti eftir fyrsta daginn, þrettán höggum á eftir hinni ensku Florentyna Parker sem er í forystu.

Ólafía Þórunn lék fyrstu sjö holurnar á pari en tapaði síðan sex höggum á næstu fimm holum þar af fékk hún tvo skramba. Ólafía Þórunn endaði síðan að fá skolla á tveimur síðustu holunum.

Ólafía Þórunn náði ekki neinum fugli í dag, fékk fjóra skolla, tvo skramba og tólf holur lék hún á pari.

Ólafía hafði staðið sig vel  á tveimur mótum á þessu tímabili á LET Access atvinnumótaröðinni, sem er næst sterkasta atvinnumótaröð kvenna í Evrópu.

Ólafía Þórunn er í 13. sæti á stigalistanum á LET Access eftir að hafa endaði í 24.-30. sæti á pari vallar á öðru mótinu sem fram fór í Sviss  (72-69-75). Á fyrsta mótinu í Frakklandi endaði hún í 16. sæti á -1 samtals (74-72-72).

Aðeins þrír íslenskir kylfingar hafa komist inn á sterkustu atvinnumótaraðirnar í Evrópu eftir góðan árangur í úrtökumótum. Ólöf María Jónsdóttir úr Keili keppti fyrst allra árið 2005 eftir að hafa tryggt sér keppnisrétt á meðal þeirra bestu.

Birgir Leifur Hafþórsson, úr GKG, er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur náð inn á Evrópumótaröðina með keppnisrétt. Ólafía Þórunn er því þriðji kylfingurinn frá Íslandi sem nær alla leið inn á mótaröð þeirra bestu.


Tengdar fréttir

Ólafía Þórunn: Fæ samviskubit ef ég er ekki að æfa mig

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur, var í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þar sem Hjörtur Hjartarson ræddi við hana um atvinnumennskuna og fleira. Ólafía segist tapsár og er spennt fyrir komandi árum í atvinnumennskunni.

Magnað að sjá hvernig Ólafía stóðst álagið

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir varð í gær önnur íslenska konan til að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni í golfi. Keppir um allan heim á næsta ári en þarf sjálf að borga brúsann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×