Viðskipti innlent

Vaxtarsjóðir fjárfestu fyrir rúmlega þrjá milljarða króna árið 2015

Sæunn Gísladóttir skrifar
Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri Eyris Sprota
Örn Valdimarsson, framkvæmdastjóri Eyris Sprota
Árið 2015 fjárfestu þrír nýir vaxtarsjóðir, Eyrir Sprotar, Frumtak 2 og Brunnur, fyrir rúmlega þrjá milljarða í fjórtán verkefnum. Fjárfestingargeta þeirra nemur ellefu milljörðum króna og hafa sjóðirnir nokkur ár í viðbót til að fjárfesta.

Frumtak 2 fjárfesti í fjórum verkefnum, Arctic Trucks, Controlant, Activity Stream og Appollo X fyrir milljarð króna. Eyrir Sprotar fjárfesti í átta verkefnum, þeirra á meðal InfoMentor, ReMake og Saga Medica, auk þess að skuldbinda sig til fjárfestinga í tveimur verkefnum til viðbótar samkvæmt upplýsingum frá Erni Valdimarssyni, framkvæmdastjóra sjóðsins. Í árslok 2015 námu fjárfestingar Eyris Sprota alls um 1,7 millörðum króna auk veittra skuldbindinga upp á um 445 milljónir króna. Heildarstærð Eyris Sprota er 3,5 milljarðar króna.

Brunnur fjárfesti í ARK Technology og ATM Select fyrir 430 milljónir króna. Heildarstærð sjóðsins er fjórir milljarðar, en það er alltaf haldið eftir að minnsta kosti helmingi fjármagnsins til að fylgja eftir verkefnum, að sögn Sigurðar Arnljótssonar fjárfestingastjóra. Sjóðurinn fjárfestir sérstaklega í fyrirtækjum sem eru að selja vöru eða þjónustu á erlenda markaði.

Til stendur hjá sjóðunum að fjárfesta í fleiri fyrirtækjum á nýju ári. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×