Innlent

Almenningi gefið það sem hann á þegar

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir í ræðupúlti á landsfundi VG.
Katrín Jakobsdóttir í ræðupúlti á landsfundi VG. Skjáskot
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, segir almenning sjá í gegnum hugmyndir fjármálaráðherra um að afhenda landsmönnum 5% hlut í bönkunum. Enda séu þær til þess fallnar að dreifa athygli frá stóra málinu sem sé hvernig haga eigi eignarhaldi á bönkunum.

Landsfundur Vinstri grænna stendur nú yfir á Hótel Selfossi. Mörg stór mál hafa verið rædd á fundinum. Til að mynda loftlagsmálin og það hvernig hægt sé að auka lýðræði í samfélaginum. Þá segir Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, að umræðan um jöfnuð og misskiptingu auðsins sé eins og rauður þráður í gegnum umræður á fundinum.

Bjarni Benediktsson fjámálaráðherra varpaði fram hugmyndum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær um að afhenda landsmönnum 5% hlut í bönkunum til að dreifa eignaraðild að þeim. Í dag á ríkið hlut í öllum bönkunum. Katrín segir að með þessari aðgerð sé því í raun og veru verið að gefa almenningi eitthvað sem hann á þegar. „Ég held að almenningur sjái nú í gegnum þessa hluti,“ segir Katrín. Þetta sé klassísk leið til þess að dreifa athyglinni frá stóru málunum. „Sem er það hvernig við ætlum að haga eignarhaldi á bönkunum. Hér liggur fyrir ályktun um það meðal annars að við ættum að eiga einn banka í eigu almennings og reka hann með öðrum hætti en hefðbundinn fjárfestinarbanka. Ég held að það sé eitthvað sem skipti almenning í landinu verulegu máli,“ segir Katrín.

Katrín var endurkjörinn formaður flokksins í dag og kemur til með að gegna því embætti næstu tvö árin. Fylgi Vinstri-grænna mælist samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum um 12%. „Ég hef fyrsta lagi trú á því að við eigum mikið inni og það er bara af því að ég finn að það er mjög góður andi hér og við erum að skerpa á okkar stefnu. Við höfum verið að vinna í okkar innri málum og það skilar sér. Það veit ég af reynslunni. Í öðru lagi held ég náttúrulega að það skipti mestu máli fyrir þessa hreyfingu að hún snýst um ákveðinn pólitískan kjarna og það er þess vegna sem að við erum hér saman komin þannig að við trúum á það að við eigum mjög brýnt erindi og það skiptir mestu þegar maður er í pólitík,“ segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×