Innlent

Bændur ósáttir við „Beint frá bónda“ í Bónus

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
„Að mínu mati eins beint frá bónda og hægt er að hugsa sér,“ segir framkvæmdastjóri Bónus.
„Að mínu mati eins beint frá bónda og hægt er að hugsa sér,“ segir framkvæmdastjóri Bónus. Vísir/GVA/Auðunn
Bændur sem selja afurðir sínar undir merkjum „Beint frá býli“ eru óánægðir með notkun Bónus á merkingunni „Beint frá bónda“. Formaður samtakanna Beint frá býli segir að verið sé að blekkja neytendur. Framkvæmdastjóri Bónus segir að svínakjöt sé merkt með þessum hætti og að það komi beint frá bónda á Kjalarnesi.



Eins og Arla og skyrið

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og í grunninn finnst mér þetta svipað og það sem Arla er að gera með skyrið í Bretlandi,“ segir Guðmundur Jón Guðmundsson, bóndi í Holtseli og formaður Beint frá býli.



Þar vísar Guðmundur til umdeildra auglýsinga og markaðsefnis frá Arla þar sem gefið er í skyn eða sagt berum orðum að um íslenska vöru sé að ræða. Hið rétta er hins vegar að skyrið er framleitt í Þýskalandi af dönsku fyrirtæki.



„Mér finnst verið að hafa neytendur að fífli,“ segir hann. „Menn eru að spila inn á falska ímynd.“ Guðmundur segist efins um að hinn almenni neytandi geri greinarmun á Beint frá býli og Beint frá bónda.



Beina leið af Kjalarnesi

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, segir í skriflegu svari til fréttastofu að einungis grísakjöt sem keypt sé af Geir Gunnari Geirssyni, grísabónda á Vallá á Kjalarnesi, séu merktar með þessum hætti.



„Hann er með ræktun-slátrun-verkun á sinni hendi, allt milliliðalaust og að mínu mati eins beint frá bónda og hægt er að hugsa sér,“ segir Guðmundur.

Geir Gunnar er framkvæmdastjóri Stjörnugríss, sem er stærsti svínakjötsframleiðandi á Íslandi, samkvæmt upplýsingum á síðu fyrirtækisins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×