Innlent

Bátur strandaði við Hópsnes: Öllum um borð bjargað

Stefán Árni Pálsson skrifar
Báturinn strandaði við Hópsnes.
Báturinn strandaði við Hópsnes. Vísir/Ernir
Mannbjörg varð þegar að að bátur fór upp í fjöru við Hópsnes skammt frá innsiglingunni í Grindavík. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum voru fjórir menn voru um borð og er búið að bjarga öllum. Lögreglu barst tilkynning um slysið klukkan 12:28.

Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir á Suðurnesjum voru kallaðar út vegna málsins. Þá stefndi báturinn í strand.

Báturinn heitir Gottlieb 2622, sem er stærri gerðin af línubát. Áhöfnin gekk úr bátnum þegar hann hafði strandað í fjörunni.

Uppfært 13:25: Tilkynning hefur borist frá Landhelgisgæslunni vegna málsins.

„Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst nú kl. 12:23 neyðarkall frá bátnum Gottlieb 2622 sem var vélarvana við Hópsnes á Reykjanesi. Rak bátinn hratt að landi. Fjórir skipverjar voru um borð. Þegar í stað var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út sem og björgunarsveitir á Suðurnesjum og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Skömmu eftir að útkallið barst var báturinn kominn upp í kletta og lagðist þar á hliðina. Nærstaddir bátar á svæðinu komust ekki að til aðstoðar.

Strekkingsvindur var á svæðinu, SA 10-12 m og aðstæður á staðnum erfiðar.

Skipverjar, sem voru allir í björgunargöllum náðu að koma taug í land og kl. 12:51 barst staðfesting um að þeir væru allir komnir upp í fjöru heilir á húfi. Um hálftíma eftir að útkallið barst lenti þyrla Landhelgisgæslunnar í fjörukambinum og mun hún flytja skipverjana til Grindavíkur.“

Hér strandaði báturinn.Vísir/Loftmyndir
Af strandstað.Mynd/Halli Bangsi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×