Erlent

Spenna í aðdraganda þingkosninga

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Krafist fjölmiðlafrelsis fyrir utan höfuðstöðvar dagblaðsins Bugün og sjónvarpsstöðvarinnar Kanaltürk.
Krafist fjölmiðlafrelsis fyrir utan höfuðstöðvar dagblaðsins Bugün og sjónvarpsstöðvarinnar Kanaltürk. Fréttablaðið/AFP
Helstu fjölmiðlar tyrknesku stjórnarandstöðunnar hafa mátt sæta margs konar ofríki af hálfu stjórnvalda síðustu vikurnar. Í gær réðst lögreglan inn á skrifstofur sjónvarpsstöðvanna Kanaltürk og Bugün, sem báðar eru í eigu fjölmiðlaveldisins Koza-Ipek.

Báðar þessar sjónvarpsstöðvar hafa, ásamt dagblöðunum Millet og Bugün, gefið stjórnarandstöðunni meira pláss en flestir aðrir fjölmiðlar landsins.

Í september birti dagblaðið Bugün forsíðugrein þar sem tyrkneska stjórnin var sökuð um að hafa komið vígasveitum Íslamska ríkisins í Sýrlandi til aðstoðar. Stuttu síðar réðst lögreglan inn á skrifstofur Bugün.

Fjölmiðlarnir, sem stjórnvöldum er svo uppsigað við, eru allir tengdir Fethullah Gülen, tyrkneskum stjórnarandstæðingi sem árum saman hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum.

Gülen er 74 ára trúarleiðtogi og rithöfundur, leiðtogi eigin hreyfingar sem boðar hófsaman íslamisma en þykir jafnframt einkennast af persónudýrkun á Gülen sjálfum. Stjórnin í Tyrklandi hefur sakað hreyfinguna um tengsl við hryðjuverk og spillingu.

Þingkosningar verða haldnar í Tyrklandi á sunnudaginn. Recep Tayyip Erdogan forseti vonast til þess að sinn flokkur, Réttlætis- og þróunarflokkurinn, nái þá aftur þingmeirihluta.

Síðast var kosið til þings í Tyrklandi í júní síðastliðnum og þá missti Réttlætis- og þróunarflokkurinn meirihluta sinn, en þeir fjórir flokkar sem kosnir voru á þing náðu engum árangri í stjórnarmyndunartilraunum.

Fyrri ríkistjórn Réttlætis- og þróunarflokksins hefur því setið áfram til bráðabirgða í bráðum hálft ár. Skoðanakannanir benda ekki til þess að eftir kosningarnar á sunnudag verði möguleikar á stjórnarmyndun orðnir neitt skárri.

Réttlætis- og þróunarflokkurinn hefur í meira en áratug setið einn að völdum, um tíma með nægan meirihluta til að geta breytt stjórnarskránni á eigin spýtur.

Núna væri eini möguleiki hans á tveggja flokka stjórn samstarf við helsta andstæðing sinn, gamla Lýðveldisflokkinn sem lengst af var öflugasti flokkur landsins.

Samkvæmt skoðanakönnunum hefur fylgi Réttlætis- og þróunarflokksins minnkað eitthvað en fylgi Lýðveldisflokksins styrkst svolítið, en þær breytingar skipta ekki sköpum.

Hvorugur stóru flokkanna er áfjáður í stjórnarsamstarf með hægri þjóðernissinnum, og hvorugur er heldur áfjáður í samstarf með flokki Kúrda. Þess vegna hafa stjórnarmyndunarviðræður engu skilað og ekki sjáanlegt að kosningarnar á sunnudag breyti þar miklu.

Sjálfur var Erdogan kosinn forseti á síðasta ári, eftir að hafa verið forsætisráðherra í rúman áratug. Hann var einnig leiðtogi Réttlætis- og þróunarflokksins frá stofnun árið 2001, en sagði af sér flokksformennskunni daginn áður en hann tók við forsetaembættinu í ágúst árið 2014.

Baráttan gegn KúrdumÁsakanir um stuðning stjórnarinnar við Íslamska ríkið í Sýrlandi tengjast spennu milli stjórnarinnar og Kúrda, sem hafa áratugum saman barist fyrir viðurkenningu stjórnvalda. Réttindi þeirra hafa verið fótum troðin í Tyrklandi allt þar til á síðustu árum, þegar samið var um vopnahlé og stjórn Erdogans gaf að nokkru eftir og veitti Kúrdum aukin réttindi. Helst vilja Kúrdar stofna sjálfstætt ríki Kúrda, Kúrdistan.

Hálfgildings sjálfstæði Kúrdahéraðanna í Írak og í Sýrlandi vekur ótta tyrknesku stjórnarinnar, sem þess vegna hefur verið treg til að styðja Kúrda gegn Íslamska ríkinu.Þegar átökin við Íslamska ríkið stóðu sem hæst í sumar leituðu Tyrkir á náðir NATO og fengu þar stuðning við baráttu sína gegn hryðjuverkamönnum, en hafa til þessa notfært sér það meira til árása á Kúrda en til að berjast gegn Íslamska ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×