Skoðun

Hinsegin hnökrar

Óskar Steinn Ómarsson skrifar
Í leiðara Fréttablaðsins miðvikudaginn 5. ágúst skrifar Fanney Birna Jónsdóttir um „hnökrana“ sem eftir eru í jafnréttisbaráttu hinsegin fólks. Sem dæmi um „hnökra“ þessa skrifar Fanney Birna um raunir samkynja hjóna frá Rússlandi og Lettlandi sem giftu sig á Íslandi en fá ekki skilnað hér því lagaheimild skorti.

Látum það liggja á milli hluta hvort orðið „hnökrar“ eigi við í þessu tilviki. Það sem vakti hins vegar athygli mína við lesturinn var að ekki einu orði var minnst á þá „hnökra“ sem jaðarhópar hinsegin regnhlífarinnar þurfa enn að glíma við.

Í leiðaranum vitnar Fanney Birna í orð Evu Maríu Þórarinsdóttur, formanns Hinsegin daga, sem lét hafa eftir sér í viðtali við Fréttablaðið síðastliðinn þriðjudag að skipuleggjendur hátíðarinnar í ár hafi þurft að velta fyrir sér hvers vegna enn sé verið að halda hátíðina. Eva bætti svo við: „Það hefur orðið svo mikil þróun hér á landi og við erum komin með þannig séð öll réttindi sem við höfum verið að berjast fyrir.“

Í leiðara Fanneyjar Birnu og í viðtalinu við Evu Maríu kristallast vandamál hinsegin hreyfingarinnar. Samkynhneigt sís fólk yfirgnæfir umræðuna og aðrir sem tilheyra hinsegin regnhlífinni verða eftir í baráttunni.

Við erum nefnilega ekki komin með öll réttindi sem við höfum barist fyrir. Það misrétti sem enn á eftir að leiðrétta getur ekki með nokkru móti kallast „hnökrar“. Það á enn margt eftir að gera í réttindum hinsegin fólks, þá sérstaklega trans- og intersexfólks og annarra sem tilheyra jaðarhópum hreyfingarinnar.

Þó að við sem erum „bara“ samkynhneigð njótum þeirra forréttinda að geta upplifað hversdagsleg vandamál okkar sem „hnökra“ þá upplifir hinsegin fólk innan okkar raða ennþá ofbeldi, kerfisbundna mismunun og brjálæðislega fordóma. Það rekst á endalausa og himinháa veggi í kerfinu. Því er ýtt út í læknismeðferðir sem það vill ekki. Það er talið geðveikt. Það verður fyrir einelti og lifir við skert atvinnuöryggi.

Þetta eru ekki „hnökrar“. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að við höldum Hinsegin daga.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×