Skoðun

Augu kvenna?

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar
Þekktur íslenskur kvikmyndagerðarmaður segir í viðtali við Fréttablaðið 24. júlí að hann vilji láta setja „kynjakvóta“ á úthlutanir fjár úr kvikmyndasjóði. Með þeim hætti vilji hann „auka hlut kvenna í kvikmyndagerð“.

Daginn eftir talar blaðið við menntamálaráðherrann sem segir með tungutaki nútímans: „Þetta er hugmynd sem ég er tilbúinn að skoða alvarlega.“

Ekki verður betur séð en þessir menn séu að mæla með því að gert skuli upp á milli umsókna um framlög úr þessum opinbera sjóði á grundvelli kynferðis umsækjenda. Í orðum þeirra felst ráðagerð um að karlmenn sem sækja um skuli ekki njóta sama réttar til framlags og konur.

Í 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár okkar er að finna svofellt ákvæði: „Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Gaman væri að heyra þessa tvo menn skýra út fyrir okkur hvernig þessar hugmyndir samrýmast ákvæðinu. Þeir hljóta að ráða við það eða hvað? Nema þeir meini ekkert með því sem þeir segja og séu aðeins að reyna að ganga í augu kvenna. Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem karlmenn leggja lykkju á leið sína í þeim tilgangi!




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×