Skoðun

Unga fólkið hringir viðvörunarbjöllum

Gunnar Axel Axelsson skrifar
Eitt af því sem einkenndi síðustu sveitarstjórnarkosningar var dræm kosningaþátttaka, sérstaklega á meðal ungs fólks. Reyndar hefur kosningaþátttaka aldrei verið minni hér á landi. Í stærstu sveitarfélögunum var hún einungis um 60% en á landsvísu var hún 66,5%, samanborið við 83,2% árið 2002. Í aldurshópnum 25-29 ára var kjörsóknin einungis 45,4%.

Af tölunum að dæma virðist þróunin vera eins í öllum aldurshópum. Unga fólkið dregur vagninn í þeirri þróun. Sú þróun sem við sjáum þeirra á meðal er augljós fyrirboði um þá átt sem samfélagið er að þokast í.

Ekki séríslenskt

Það er auðvelt að draga þá ályktun að hér sé um að ræða séríslenskt viðfangsefni og að ungt fólk á Íslandi hafi einfaldlega ekki áhuga á stjórnmálum eða þjóðmálum almennt. Það væri þó mikil einföldun. Þvert á móti bendir þróunin í Evrópu og víðast í hinum vestræna heimi til þess að kosningaþátttaka fólks á öllum aldri fari hratt dvínandi og efasemdir um gildi stjórnmálaflokka hafi aukist á sama tíma og traust til stjórnvalda og lykilstofnana samfélagsins fari minnkandi. Þessi þróun er mest áberandi á meðal ungs fólks.

Rannsóknir, meðal annars á Íslandi, benda til þess að ungu fólki finnist þátttaka sín í stjórnmálum ekki skipta máli, að ungt fólk upplifi ekki lýðræðiskerfið á jákvæðan hátt og finni ekki að atkvæði þess sé einhvers virði. Þjóðir sem við venjulega berum okkur saman við hafa flestar upplifað sömu þróun og eru að spyrja sig sömu spurninga og við. Hvað getum við gert?

Ef við ætlum að finna leiðir til þess að vernda lýðræðið og stuðla að jákvæðri þróun þess verðum við að byrja á því að viðurkenna að vandamálið liggur ekki hjá ungu fólki eða kjósendum almennt. Þrátt fyrir dræma kjörsókn virðist áhugi ungs fólks á þátttöku í mótun samfélagsins nefnilega ekkert hafa dvínað og jafnvel þvert á móti.

Samhliða minnkandi kjörsókn má sjá aukna þátttöku ungs fólks á sviðum sem við erum ekki endilega vön að skilgreina sem hluta af hinu formlega stjórnmálasviði. Til dæmis í grasrótarstarfi sem ekki tengist hefðbundnum stjórnmálaflokkum og um allan heim hefur ungt fólk verið í framlínu mótmæla og beinna aðgerða síðustu ár.

Virknin og viljinn til þátttöku er því til staðar og jafnvel enn meiri en áður. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því ekki endilega hvernig við getum virkjað ungt fólk, heldur kannski frekar hvað það er í okkar lýðræðiskerfi og þróun samfélagsins sem fólk er ósátt við og hvernig við getum bætt það.

Lýðræðið er undir

Ein af þeim skýringum sem hafa verið nefndar er aukinn ójöfnuður og vaxandi valdaójafnvægi sem honum fylgir. Bent hefur verið á að auknum ójöfnuði fylgi ekki aðeins neikvæð þjóðhagsleg áhrif, ójöfnuður dragi úr hagvexti og samkeppnishæfni þjóða, heldur séu vestræn ríki komin að þeim mörkum í misskiptingu auðs og tekna að það beinlínis flæði undan lýðræðislegu skipulagi þeirra. Sífellt meiri auður safnist á færri hendur sem um leið hafa sífellt meiri ítök á hinu pólitíska sviði. Með auknum ójöfnuði myndast þannig ójafnvægi í samfélaginu, áhrif sterkra sérhagsmunaafla aukast og áhrif hins almenna kjósanda dvínar sem og áhugi hans á að taka þátt.

Unga fólkið hringir viðvörunarbjöllum

Kjarni málsins er sá að þegar nýir kjósendur sjá ekki raunverulegan tilgang með því að mæta á kjörstað og kjósa ættu allar viðvörunarbjöllur samfélagsins að hringja. Spurningarnar sem við þurfum að spyrja snúa ekki aðeins að ungu fólki heldur lýðræðiskerfi okkar almennt. Í afstöðu ungs fólks og upplifun á núverandi kerfi liggja hins vegar augljóslega svörin. Þess vegna verðum við að tryggja að rödd þess heyrist og ungt fólk fái tækifæri til þátttöku, til þess að hafa áhrif á samfélagið og þróun þess. Það er ekki nóg að tala um það, það þarf að láta verkin tala.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×