Skoðun

Keikó í bernaise-sósu, svar

Íris Ólafsdóttir skrifar
Í síðustu viku las ég bráðfyndna grein eftir Sif Sigmarsdóttur sem bar yfirskriftina „Keikó í bernaise-sósu“. Þar var á skemmtilegan hátt bent á óhagkvæmni hvalveiða fyrir þjóðarbúið í ljósi þess að skaðinn sem þær valda á ímynd landsins, ferðamannaiðnaðnum og útflutningi lambakjöts, er margfalt meiri en nokkurn tíma hagnaðurinn sem af þeim hlýst. Það er því borðliggjandi að hvalveiðar eru heimskulegar því þær eru óhagkvæmar.

Greinarhöfundur tók líka skýrt fram að hún hefur engar taugar til dýra, finnst þau almennt ekki krúttleg, langar í dádýrasteik þegar hún sér Bamba og gæti vel hugsað sér Keikó í bernaise-sósu. Þessi aftenging við dýrin og fullkomni skortur á samkennd með þeim gerir röksemdafærsluna gegn hvalveiðum trúverðugri þar sem hún byggist ekki á tilfinningasemi.

Ég gladdist því mjög við að lesa grein Sifjar því ég veit að einungis sjónarmið hagræðingarinnar ná til sumra og hjá þeim er einmitt tilfinningasemi eða samkennd með dýrum álitin löstur, veikleiki, rökleysa.

Segjum nú sem svo að í samfélaginu væru hópar sem er illa við Kínverja, hata konur, fyrirlíta heyrnarlausa og gætu vel hugsað sér að gæða sér á mannlegu ungviði. Þótt það hljómi fáránlega, þá á einhverjum stað, á einhverjum tíma, í sögu mannkyns hefðu þessi sjónarmið verið viðurkennd. Í dag eiga þau erfitt uppdráttar, þökk sé auknum þroska samfélaganna. Og í þeirri þróun spilar einmitt samkenndin og tilfinningasemin lykilhlutverk. Í nútíma menningarsamfélagi er hagkvæmni þessara hópa málinu óviðkomandi.

Að sama skapi á það ekki að skipta neinu máli hvort veiðar á yfirburðagreindri skepnu í útrýmingarhættu séu hagkvæmar eða ekki. Það kemur málinu hreinlega ekki við. Í þróuðu menningarsamfélagi á að gera samkennd hærra undir höfði því eftir allt saman er það hún sem hefur komið okkur áfram, hún er mikilvægari en rök efnishyggjunnar eins og mannréttindabaráttan hefur leitt í ljós. Já, það væri hagkvæmast ef þjóðfélagið losaði sig við þá sem ekki geta framfleytt sér, en sem betur fer erum við komin miklu miklu lengra.


Tengdar fréttir

Keikó í bearnaise-sósu

Röðin fyrir utan sædýrasafnið í London var löng, sólin heit og annað hvert barn var vælandi – þar á meðal mitt. Ég var löðursveitt og að fá hausverk. Allt var sem sé eins og það átti að vera. Því það að vera foreldri er píslarganga.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×