Skoðun

Ísland og Noregur verma bestu sætin

Elsa Lára Arnardóttir skrifar
Þessa dagana reyna forystumenn nokkurra flokka að telja almenningi trú um að hér á landi ríki ójöfnuður og halda því fram að ójöfnuður hafi aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þessar fullyrðingar forystumannanna eru rangar. Það rétta er að ójöfnuður hefur ekki aukist, hann hefur minnkað í stjórnartíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Einhver vill halda því fram að þeir tekjuhærri hafi lækkað í launum og því hafi jöfnuður í samfélaginu aukist. En það er ekki raunin. Þeir sem hafa lágar tekjur og millitekjur, hafa hækkað í launum og þeir sem hærri hafa tekjurnar hafa staðið í stað.

Dreifing tekna jafnari en áður

Ofangreindar upplýsingar eru settar fram á greinargóðan hátt á heimasíðu Hagstofunnar (www.hagstofan.is). Þær koma fram í frétt sem birtist þann 5. júní sl. undir yfirskriftinni „Dreifing tekna jafnari en áður“. Í greininni segir: „Árið 2014 dreifðust tekjur á Íslandi jafnar milli fólks en áður hefur sést í lífskjararannsókn Hagstofunnar en hún var fyrst framkvæmd árið 2004“. Þar kemur einnig fram að árið 2013 hafi Ísland verið með næst lægsta Gini- og fimmtungastuðulinn í Evrópu á eftir Noregi. Þessar tölur sýna að Noregur er með eilítið meiri jöfnuð en Ísland þegar Evrópulönd eru skoðuð, en við vermum annað sæti í þessum alþjóðlega samanburði. Samanburðurinn er frá árinu 2013 og þær tölur sem vitnað er í eru þær nýjustu er varða þetta efni.

Ísland kemur best út

Í frétt Hagstofunnar segir jafnframt: „Árið 2014 voru 11,1% á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun en það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í lífskjararannsókninni. Eitt af fimm lykilmarkmiðum 2020 áætlunar ESB er að fækka þeim sem falla í þennan hóp en það eru einstaklingar sem eru undir lágtekjumörkum, búa við verulegan skort á efnislegum gæðum eða búa á heimilum þar sem vinnuþátttaka er mjög lítil. Árið 2013 var þetta hlutfall lægst á Íslandi en næst komu Noregur, Tékkland og Holland.“ Af þessu má sjá að í þessum samanburði kemur Ísland best út, en Noregur næst best. Ísland og Noregur skiptast því á um að verma fyrsta og annað sætið í ofangreindum samanburði.

Við framsóknarmenn erum stoltir af þessum árangri. Hann hefur ekki einungis náðst vegna góðra ákvarðana sem teknar hafa verið á síðustu tveimur árum, heldur eiga aðrir flokkar, sem leitt hafa samfélag okkar, einnig sinn skerf í honum. Reynum að sýna sanngirni í málflutningi. Við getum sameiginlega verið stolt af því að búa í landi þar sem jöfnuður er með því mesta sem þekkist.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×