Viðskipti innlent

Markaðstorg fyrir íslenska hönnun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásdís Rósa Þórðardóttir og Júlía Helgadóttir hyggjast markaðssetja verslunina erlendis á komandi mánuðum.
Ásdís Rósa Þórðardóttir og Júlía Helgadóttir hyggjast markaðssetja verslunina erlendis á komandi mánuðum. fréttablaðið/valli
Svilkonurnar Ásdís Rósa Þórðardóttir og Júlía Helgadóttir opnuðu þann 1. júní síðastliðinn sölutorgið Kisinn.is á netinu og stefna að því að opna milliríkjaverslun í nóvember næstkomandi.

„Pælingin er að reyna að fá þarna inn einyrkja og fyrirtæki, bæði atvinnufólk og áhugafólk og þarna ægi saman sprenglærðum hönnuðum og svo föndrandi ömmum,“ segir Ásdís Rósa Þórðardóttir. Markmiðið sé að upphefja vegsemd íslenskrar hönnunar. Vefinn kalla þær Ásdís og Júlía Kisann og eru þær þessa dagana að fá til liðs við sig framleiðendur sem hafa hug á að selja vörur sínar á netinu. „Og við teljum að þá komi einhver sjarmerandi og séríslensk blanda sem við ætlum að markaðssetja,“ segir Ásdís. Vörurnar verði markaðssettar um allan heim.

Þær Ásdís Rósa og Júlía hafa farið víða að undanförnu til þess að kynna Kisann, í Reykjavík og Akureyri. Ásdís segir að þær hafi til að mynda eftir fremsta megni heimsótt allar föndurbúðir og garnbúðir sem þær hafi komist í tæri við og haft uppi á handverksfólki þar sem það hefur komið saman til að kynna því Kisann. Ásdís segir að þær muni halda þessu verkefni áfram í sumar. „Og leggjum þá land undir fót á húsbílum, með fjölskyldurnar okkar, og ætlum að þefa uppi allt handverk sem um getur á leiðinni,“ segir hún.

Kisinn mun rukka framleiðendur um 100 krónur fyrir að setja myndir af hverri vörutegund, en rukka að auki 12,5 prósent álag á hverja vöru fyrir sig. Ásdís segir að hver framleiðandi muni sjá um að selja sína vöru. „Sá sem opnar búðina þarf að ákveða verðið og verðið þarf að ná yfir sendingarkostnað og skatt og fleira,“ segir hún. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×