Skoðun

Kærleikurinn krefst aðgerða

Anna Lára Steindal skrifar
Um daginn var mér boðið í bíó af vinum sem hafa alið manninn á Íslandi upp á síðkastið en eru fæddir og uppaldir í Danmörku af tyrkneskum foreldrum. Dásamlegt sómafólk sem ég hef miklar mætur á. Fyrir um það bil ári stofnuðu þau, í félagi við aðra einstaklinga sem deila draumnum um að hafa áhrif til góðs, Félag Horizon. Félagsskap sem grundvallast á hugmyndafræði Gulen-hreyfingarinnar um þjónustu og að gera gott í heiminum.

Bíómyndin sem við horfðum á um leið og við mauluðum alls konar tyrkneskt góðgæti fjallar einmitt um Gulen-hreyfinguna, hugmyndafræðina sem hún grundvallast á, upphafsmanninn Fethullah Gulen, sem Time Magazine útnefndi einn áhrifaríkasta mann heims árið 2013, og verkefnin sem fólkið sem hann veitir innblástur sinnir úti um allan heim, oft við aðstæður sem aðrir hafa gefist upp á. Myndin heitir Love is a verb og er allt í senn falleg, áhrifamikil og eykur bjartsýni og tiltrú á að við getum leyst úr alls konar flækjum sem of oft eru látnar líta út fyrir að vera óleysanlegar – ekki síst þegar kemur að samskiptum Vesturlanda og heims íslams.

Í grundvallaratriðum snúast verkefni Gulen-hreyfingarinnar – og þeirra sem starfa á sömu forsendum eins og Félag Horizon – um að undirstrika sammannleg gildi og þjappa okkur saman um þau í bróðerni og kærleika. Vera kærleiksríkt afl til jákvæðra breytinga og vinna þannig gegn þeirri tilhneigingu að einblína á það sem skilur okkur að, sem sundrar og skemmir. Gulen-hreyfingin er stofnuð af súnní-múslimum og er undir nokkrum áhrifum súfisma en er ekki trúarleg í eiginlegum skilningi. Fethullah Gulen, sem er allt í senn aktívisti, kennari og predikari, lagði ríka áherslu á að vegna vel hér og nú og deila lífi sínu með öðrum – öllum manneskjum af öllum trúarbrögðum. Í því skyni taldi hann nauðsynlegt að leggja áherslu á menntun, lýðræði, jafnræði og jafnrétti. Í dag eru þessi gildi grundvallaratriði í starfi Gulen-hreyfingarinnar um veröld víða.

Þetta er ekki fyrsti viðburðurinn sem ég sæki í boði Félags Horizon. Í vetur efndi félagið, í samvinnu við Neskirkju, til menningarhátíðarinnar Azhura sem rekur rætur sínar til sögunnar af Nóa, sögu sem er að finna bæði í Biblíunni og Kóraninum. Þar heillaðist ég af hugmyndafræði Félags Horizon, vinum mínum og félögum sem að félaginu standa og sannfærðist um mikilvægi þess starfs sem þau beita sér fyrir; að leggja áherslu á sammannleg gildi, sameina en ekki sundra, sýna kærleika í stað ótta, byggja upp traust og vináttu milli ólíkra einstaklinga. Ef þið einhvern tíma fáið tækifæri til að kynna ykkur það sem það stendur fyrir eða taka þátt í starfi þess skuluð þið ekki láta það fram hjá ykkur fara!




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×