Skoðun

Karlar spegla sig

Magnús Guðmundsson skrifar
Svisslendingur frá Seyðisfirði er búinn að gera allt vitlaust í Feyneyjum á Ítalíu. Christoph Büchel setti upp mosku í ónotaðri og afhelgaðri kaþólskri kirkju á Feneyjatvíæringnum, virtustu og eftirsóttustu myndlistarhátíð heims, og moskan er framlag Íslands í ár. Flestum er þetta kunnugt en þó er ágætt að hafa í huga að þetta er ekki í fyrsta sinn sem verk Christoph Büchel hrista upp í listheiminum og jafnvel heilu samfélögunum – langt frá því.

Á meðal verka Büchel má nefna sviðsetningu á kynlífsklúbbi í Vín, sýning á eigum heimilislausra í New York og að breyta fínu galleríi í London í félagsmiðstöð. Allt eru þetta ágætis dæmi um vandlega úthugsuð, áleitin og ögrandi verk við ríkjandi vald, hugmyndir okkar og samfélag.

Christoph Büchel virðist hafa tekist sérstaklega vel upp í Feneyjum. Ekki einungis afmarkaður heimur listarinnar heldur samfélagið allt tekur þátt í deilum og umræðum um stöðu verksins, orsakir og afleiðingar. Umræðan nær líka alla leiðina hingað heim og þá ekki aðeins til listheimsins heldur út á meðal almennings. Sitt sýnist hverjum en aðalatriðið er að við tökum umræðuna og berum vonandi gæfu til þess að sjá samhengið við okkar eigið litla samfélag.

Á sama tíma og svissneski Seyðfirðingurinn er að hræra í samfélaginu í Feneyjum eru listakonur frá New York að pota í okkur hérna heima – sum okkar að minnsta kosti. Verk Guerilla Girls sem prýðir austurhlið tollhússins í Reykjavík er beinskeytt og áleitið verk. Listakonurnar frá New York hafa verið harðar í gagnrýni sinni á mjög svo skertan hlut og möguleika kvenna í listum og menningu síðustu þrjátíu árin. Á þessu er engin breyting hér.

Eins og oft áður nýta þær sér tölulegar staðreyndir og að þessu sinni sýna þær fram á hversu mikið hallar á konur í íslenskri kvikmyndagerð. Sjón er sögu ríkari.

Ekki er þó hægt að segja að hinn karllægi heimur íslenskra kvikmynda bregðist við með þroskuðum hætti. Helst er að karlmenn í faginu leggi sig fram um að sýna með súluritum að það sé í raun alls ekki svo slæmt að vera kvikmyndagerðarkona á Íslandi.

En kvikmyndirnar tala sínu máli. Flestar leiknar bíómyndir á Íslandi eru skrifaðar af körlum, leikstýrt af körlum, karlleikarar eru í meirihluta og þar af leiðir að þær fjalla að mestu leyti um hlutskipti karla. Það sér hver heilvita manneskja vonandi að þetta er ekki gott – ekki síst í ljósi þess að um helmingur þjóðarinnar eru konur.

Verk Guerilla Girls og moska Büchel eru sett fram til þess að benda okkur á það sem við þurfum að takast á við og síðan stíga listamennirnir frá. Nú er það samfélagsins að taka við. Kvikmyndasamfélagið á Íslandi þarf að horfast í augu við að þetta er ekki nógu gott. Við eigum öll að geta speglað okkur í listinni – ekki aðeins karlar, heldur líka konur.




Skoðun

Sjá meira


×