Innlent

Milljónir í æskulýðsstarf kirkjunnar frá Seltjarnarnesi og Garðabæ

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Formaður sóknarnefndar Garðasóknar segir bæjaryfirvöld fá ítarlegar upplýsingar um hvernig styrkfé úr bæjarsjóði er varið.
Formaður sóknarnefndar Garðasóknar segir bæjaryfirvöld fá ítarlegar upplýsingar um hvernig styrkfé úr bæjarsjóði er varið. Fréttablaðið/Rósa
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á þriðjudag að styrka æskulýðsstarf þeirra tveggja sóknarkirkna sem heyra undir þjóðkirkjuna í sveitarfélaginu um samtals 16,5 milljónir króna á þremur árum.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri segist ekki óttast athugasemdir við að verið sé að styrkja starfsemi trúfélags með fé úr bæjarsjóði.

„Nei, við erum að styrkja margvíslegt starf hjá öllum félögum. Við erum til dæmis að styrkja Klifið sem skipuleggur vísinda- og tómstundastarf fyrir ungt fólk. Þannig að við styrkjum margt sem eflir barna- og unglingastarf almennt og erum ekki að velta fyrir okkur hvort það sé kirkjan eða ekki,“ svarar bæjarstjórinn.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Að sögn Gunnars eru mörg ár síðan Garðabær gerði fyrst samning við Garðasókn um æskulýðsstarfið. Nú hafi Bessastaðasókn bæst við eftir að Garðabær og Álftanes sameinuðust. Um leið og styrkirnir til Garðasóknar og Bessastaðasóknar voru samþykktir ákvað bæjaráð sex milljóna króna árlegt framlag til Hestamannafélagsins Spretts, sjö hundruð þúsund króna árlegt framlag til Hestamannafélagsins Sóta og sex hundruð þúsund króna árlegt framlagt til Taflfélags Garðabæjar.

„Við höfum horft á þetta þannig að þessi félög, alveg sama hvað þau heita og hvað þau gera, séu ákveðið lím í samfélaginu og höfum tekið meðvitaða ákvörðun um það að styrkja félög almennt vel og hvetja þau áfram,“ segir Gunnar. „Því fleiri félög og meiri starfsemi hjá þessum félögum því öflugra er lýðræðið og samkenndin í sveitarfélaginu og félagsauðurinn eykst. Í fræðunum er talað um að því öflugri sem félagsauður hvers samfélags er því meira traust ríki milli íbúanna og því meira traust á yfirvöldum líka.“

Magnús E. Kristjánsson, formaður sóknarnefndar Garðasóknar.Fréttablaðið/Anton
Starfsmaður á biskupsstofu kveðst aðeins vita um eitt annað sveitarfélag á landinu sem styrkir æskulýðsstarf í þjóðkirkjunni með fjárframlögum. Það sé Seltjarnarnes. Framlag bæjarins til barna- og unglingastarfs Seltjarnarneskirkju er fjórar milljónir króna á þessu ári.

Í samningum um styrkina við æskulýðsfélög í Garðasókn og Bessastaðasókn er kveðið á um árlegar greiðslur til þriggja ára og skyldur sóknanna. Til dæmis eiga þær að efla barna- og unglingastarf í formi sunnudagaskóla, efla tengsl við annað íþrótta-, tómstunda- og forvarnarstarf í bænum og annast fræðsluverkefni fyrir börn og ungmenni með áherslu á mannréttindi, hjálparstarf, lífsleikni og siðfræði.

„Bæjarfélagið hefur sem betur fer séð sér fært að styrkja æskulýðsstarf hjá honum ýmsu félögum í bænum, meðal annars hér og fyrir það erum við þakklát,“ segir Magnús E. Kristjánsson, formaður sóknarnefndar Garðasóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×