Innlent

Segja reglur Þjóðskrár brjóta í bága við trúfrelsi

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Hala fékk að lokum staðfestingu frá trúfélagi hér á landi. Eiginmaðurinn sótti hana.
Hala fékk að lokum staðfestingu frá trúfélagi hér á landi. Eiginmaðurinn sótti hana. Vísir/Ernir
„Ég óska þess að stofnanir á Íslandi hætti að biðja múslimakonur að sanna trú sína með því að biðja aðra sem þekkja þær ekki neitt um staðfestingu. Trú mín kemur engum við nema hér. Hún er persónuleg,“ segir Hala Fadlyeh, sem var send frá Sýslumanninum í Kópavogi og beðin um að skila inn staðfestingu á að hún klæðist hijab, höfuðklút, vegna trúar sinnar.

„Ég hafði beðið í klukkutíma eftir myndatöku en þegar röðin kom að mér var ég send út til þess að sækja gögn um trú mína.“

Hala bað vinkonu sína Saida El Bouazzati um hjálp. Saida hefur búið á Íslandi í nærri tvo áratugi og þekkir samfélagið vel.

„Hala grét af áhyggjum og skildi ekki hvað var að gerast. Ég sjálf ber hijab í vegabréfi mínu og hef alltaf gert, ég hef aldrei verið beðin um þessa staðfestingu áður. Hvorki hér né annars staðar svo ég ákvað að leita skýringa á þessu. Ég hringdi til sýslumanns og þar fékkst það staðfest að hún þyrfti að skila inn gögnum um trú sína. Mér var bent á að tala við Þjóðskrá sem setur reglur um vegabréf og ég gerði það.

Svörin þar voru á sömu leið, Hala þyrfti að fá staðfestingu á trú sinni til að fá að bera hijab á vegabréfsmynd. Hér væru lög sem giltu um myndir í vegabréfum sem við þyrftum að fara eftir. En hvað þýða þessi lög og reglur? Að við þurfum að reiða okkur á utanaðkomandi staðfestingu? Að við þurfum að skrá okkur í trúfélag? Hvaða frelsi höfum við og hvaða réttindi, við erum ekki vissar lengur um það. Við höfum ekki heyrt um þessa breytingu á lögum og hefðum mótmælt þeim af krafti. Hvað næst? Þurfum við leyfi eiginmanna eða forsvarsmanna trúfélaga til að ferðast?“



Tákn hógværðar og mildi

Hala segist stolt af því að búa á Íslandi. „Ísland er besta land í Skandinavíu og hér ríkir bæði trú -og kvenfrelsi. Ég held að það hafi gleymst að skoða réttindi múslimakvenna, það þarf að endurskoða þetta ferli. Ég óska þess,“ segir hún mildilega. Henni finnst óþægilegt að standa á sínu hvað þetta varðar. Hún ber hijab af mörgum ástæðum, hún er tákn hógværðar og mildi fyrir henni. „Hijab er alls staðar í heiminum, þetta er bara slæða sem er okkur mikilvægt trúartákn og hluti menningar okkar, fyrir okkur er þetta tákn um hógværð og við berum hana af því við viljum það.“

Saida segir marga halda að konur beri slæðuna til að hylja hár sitt. „Ég hef búið annars staðar og þetta hefur aldrei komið upp áður svo ég muni eftir. Við erum ekki í búrku, þetta er bara hijab og það sést mjög vel í alla andlitsdrætti. Við höfum aldrei heyrt um nokkuð svona áður.

Í mörgum arabalöndum þarf að tiltaka trú í vegabréfi og í mörgum arabalöndum er frelsi kvenna skert. Vill Ísland líka vera þjóðfélag sem krefst þess að aðrir tali fyrir hönd kvenna? Megum við ekki bara staðfesta okkar trú sjálfar? Vill íslenskt þjóðfélag að konur skrái sig í trúfélag án þess að vilja það? Megum við ekki ráða því sjálfar?“ spyr Saida.

Saida minnir á að þær eru Íslendingar og njóti sömu mannréttinda og aðrir. „Við erum Íslendingar líka. Við stöndum ekki utan samfélagsins. Mér finnst ekki rétt að neita okkur um vegabréf ef við viljum við ekki að aðrir staðfesti trú okkar fyrir okkur. “

Erfitt að ferðast

Hala er upprunalega frá Sýrlandi og kom hingað fyrst árið 1996. Hún hefur búið á landinu með hléum. „Ég fæddi börnin mín þrjú hér á landi. Sú elsta er átján ára og synir mínir tveir eru 15 og 16 ára. Það gengur vel hjá okkur. Það eru mikil vandamál í heiminum í dag, litla systir mín býr enn í Sýrlandi þar sem ástandið er mjög ótryggt. Það er langt síðan ég hef ferðast til Sýrlands, ég vil frekar að systir mín fái að koma til mín. Ég sé fyrir henni, fer í bankann í hverjum mánuði og sendi henni peninga. Foreldrar okkar eru látnir en ég fæ samt ekki að óska þess að hún fái að koma hingað til lands. Það verður sífellt erfiðara að ferðast vegna ástands í arabalöndunum.“

Saida útskýrir að konur geti vel lent í erfiðleikum á ferðalögum án hijab. „Þetta er ekki aðalatriði, í langflestum tilvikum er auðvelt að ferðast um. En það getur komið fyrir að ef við erum með vegabréf án hijab en það eru kannski myndir af okkur í kerfinu með hijab að það vakna upp spurningar. Hvers vegna er hún ekki með hijab í vegabréfinu? Er hún að villa á sér heimildir? Þetta getur gerst.“

Saida hefur sjaldan lent í erfiðleikum. Það var hins vegar í Leif

„Hún var með hijab og orðin háöldruð. Þeir vildu leita á henni og ég bað þá vinsamlegast að fara með hana í annað herbergi. Þar var hún látin fara úr öllu nema brjóstahaldaranum. Greyið mamma, henni sárnaði svo mikið að hún hefur aldrei viljað koma til Íslands síðan.“

Erfitt að fá vinnu með hijab

Það er ekki eingöngu í stofnunum ríkis sem þær finna fyrir fordómum. Þær segja þekkt að konur með hijab eigi erfitt með að fá vinnu. „Við fáum síður vinnu með hijab. Við erum beðnar um að taka niður slæðuna ef við viljum fá vinnu. En þetta er bara slæða. Íslenskar verkakonur báru höfuðklúta við vinnu í gamla daga. María mey er með hijab!“ segir hún og skellir upp úr. „Ég skil ekki hvers vegna þetta þykir svona háalvarlegt. Mér finnst skrítið hversu illa Íslendingum er við höfuðklútana sem eru einstaklega hentug höfuðföt í svona köldu veðri,“ segir Saida.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×