Viðskipti innlent

Tjón á ökutækjum hafa aukist undanfarið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Forstjórar allra þriggja tryggingafélaganna hafa sagt að veturinn hafi verið óvenju tjónaþungur, einkum vegna tíðra óveðra.
Forstjórar allra þriggja tryggingafélaganna hafa sagt að veturinn hafi verið óvenju tjónaþungur, einkum vegna tíðra óveðra. fréttablaðið/stefán
„Merkjanleg neikvæð þróun ökutækjatjóna hefur átt sér stað það sem af er ári. Þá þróun má að hluta rekja til tíðarfarsins og ástands vega en aukin tjónatíðni er einnig þekktur fylgifiskur bættra aðstæðna í efnahagslífinu,“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.

Hann segir í afkomutilkynningu sem send var fjölmiðlum í gær að vonandi muni endurnýjun bílaflotans, aukið öryggi bíla og tvöföldun vega og brúa draga úr þeirri þróun að bætt efnahagsumhverfi leiði til fjölgunar tjóna.

Hagnaður af rekstri Sjóvár á fyrsta ársfjórðungi nam 624 milljónum króna, samanborið við 124 milljóna króna tap á sama tíma árið áður. Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam 55 milljónum króna, en var 318 milljónir króna á sama tímabili árið á undan. Hagnaður af fjárfestingastarfsemi nam aftur á móti 757 milljónum króna en 347 milljóna króna tap var á fjárfestingum á sama tíma í fyrra. Eigið fé fyrirtækisins nam 14,4 milljörðum króna samanborið við 17,8 milljarða um áramót.

Neikvæð þróun Forstjóri Sjóvár vonar að endurnýjun bílaflotans, aukið öryggi bíla og tvöföldun vega og brúa dragi úr þeirri þróun að bætt efnahagsumhverfi leiði til fjölgunar tjóna.fréttablaðið/vilhelm
Sjóvá er þriðja og síðasta tryggingafélagið í Kauphöll Íslands sem skilar árshlutauppgjöri fyrir fyrsta fjórðung. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 15,5%. Bæði Vátryggingafélag Íslands og Tryggingamiðstöðin birtu árshlutauppgjör þann 30. apríl. Hjá Vátryggingafélagi Íslands var arðsemi eigin fjár 18,3% en hjá Tryggingamiðstöðinni var arðsemi eigin fjár 2,5 prósent. Hagnaður VÍS nam 733 milljónum króna á fjórðungnum samanborið við 14 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Hagnaður TM nam 72 milljónum samanborið við 700 milljóna króna hagnað á sama tímabili í fyrra. 

Forstjórar allra þriggja tryggingafélaganna hafa sagt að veturinn hafi verið óvenju tjónaþungur, einkum vegna tíðra óveðra. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×